Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Ragnari að viðræðurnar verði þær flóknustu sem hann hafi komið að síðan hann hóf aðkomu að kjarasamningsgerð árið 2009.
Fulltrúar verslunarinnar hafa boðað verðhækkanir á næstu mánuðum, verðbólgan er nú 5,7% og stýrivextir verða væntanlega hækkaðir ríflega í dag en þeir eru 2% þegar þetta er skrifað. Á síðasta árið hækkað húsnæðisverð um rúmlega 12% og ríkissjóður tapar hálfum milljarði á dag segir Fréttablaðið.
Haft er eftir Ragnari að á tveimur árum hafi leiguverð venjulegrar íbúðar hækkað í 310.000 krónur úr 280.000 krónum. „Ég þarf að semja um 50 þúsund króna launahækkun fyrir þennan hóp, bara til þess að standa undir vísitöluhækkun leiguverðs,“ er haft eftir honum.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði að verðbólga þýði kjararýrnun og hana vilji fólk sækja til baka ef ekki tekst að koma böndum á verðbólguna.
Þeir sögðu báðir að ríkið þurfi að koma að viðræðunum til að liðka fyrir þeim en það var gert við gerð Lífskjarasamninganna 2019 en þá lofaði ríkisstjórnin aðgerðum í 42 liðum sem enn hafa ekki allir verið uppfylltir að sögn Björns. „Þau verða að hysja upp um sig buxurnar og klára það,“ sagði hann.