Í gær tilkynnti danska varnarmálaráðuneytið að heilli herdeild verði nú safnað saman í Slagelse til að undirbúa sig undir bardaga. B.T. hefur eftir Rasmussen að þetta sé mjög óvenjulegt og til merkis um að ríkisstjórnin og herinn hafi þungar áhyggjur af þróun mála í Austur-Evrópu. Hann sagðist ekki minnast þess að danski herinn hafi sett herdeildir á viðbúnaðarstig síðan á dögum kalda stríðsins.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að ákveðið hafi verið að efla viðbúnað hersins vegna „óásættanlegs hernaðarþrýstings Rússa á Úkraínu.“
Herdeildinni verður nú stefnt saman í Slagelse og undirbúin undir að geta brugðist við kalli frá NATO á einum til fimm dögum. Herdeildin er hluti af viðbragðsher NATO. Að auki var ákveðið að staðsetja tvær F-16 orustuþotur á Borgundarhólmi til að geta brugðist við ágangi Rússa en þeir hafa oft á tíðum verið nærgöngulir við eyjuna.
Rasmussen sagði að þetta væri allt til merkis um að NATO hafi beðið aðildarríkin um að gera hraðsveitir sínar reiðubúnar.