„Ef Rússar gera innrás, það er að segja ef skriðdrekar eða hersveitir fara yfir úkraínsku landamærin þá verður ekki neitt sem heitir Nord Stream 2. Ég lofa ykkur að þá munum við binda endi á það verkefni,“ sagði Biden. Hann sagði jafnframt að Þýskaland væri „eitt mikilvægasta bandalagsríki Bandaríkjanna í öllum heiminum.“
Scholz tók undir orð Biden og sagði að það muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Rússa ef þeir ráðast á Úkraínu. Hann var þó ekki jafn skýrmæltur og Biden hvað varðar Nord Stream 2 en sagðist standa þétt við hlið Biden. „Við munum ekki taka mismunandi skref. Við munum grípa til sömu aðgerða og þær munu leika Rússa mjög, mjög illa,“ sagði hann um hugsanlegar refsiaðgerðir.