„Á henni hafa dunið svívirðilegar ásakanir um alls konar glæpi sem hún á að hafa framið gegn starfsfólki á skrifstofunni sem er eign Eflingarfélaga. Fremst í flokki óhróðursmeistaranna voru fyrrverandi stjórnendur sem áttu greiðan aðgang að fjölmiðlum og hafa notfært sér óspart frá því skömmu eftir að hún tók við embætti,“ segir Birna Gunnarsdóttir, systir Sólveigar Önnu Jónsdóttur, í grein sem hún birtir á Kjarnanum.
Greinin ber yfirskriftina „Mannorð Sólveigar Önnu Jónsdóttur,“ og hefst á þessum orðum: „Allt frá því að Sólveig Anna Jónsdóttir bauð sig fram og sigraði í formannskjöri verkalýðsfélagsins Eflingar hefur hún mátt fyrir sitja undir svo ótrúlegum óhróðri og ærumeiðingum að annað eins hefur varla sést hérlendis í áratugi.“
Sólveig Anna sagði af sér embætti sem formaður Eflingar í haust í kjölfar mikilla deilna við starfsfólk félagsins. Hún sækist nú eftir formannsembættinu á ný og leiðir einn þriggja lista sem eru í framboði til stjórnar á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 15. febrúar.
Birna gagnrýnir umfjöllun um úttekt sem sálfræðistofan Líf og sál vann fyrir Eflingu þar sem dregin er upp svört mynd af vinnuaðstæðum á skrifstofu Eflingar í formannstíð Sólveigar Önnu. Er þar greint frá ásökunum í garð framkvæmdastjórans, Viðars Þorsteinssonar, um kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti, að virðist í skjóli formanns. Birni bendir á að Sólveig Anna hafi sjálf ekki fengið að sjá þessa skýrslu en þó hafi verið fjallað um hana í fjölmiðlum. Ljóst er einnig að hvorki Sólveig Anna né Viðar höfðu vitneskju um rannsóknina og fengu ekki að koma sínu á framfæri við skýrsluhöfunda. Birna skrifar:
„Framkoma Eflingar er auðvitað forkastanleg en alls ekki síður sálfræðistofunnar Lífs og sálar sem gerir úttektina án þess að leita á nokkurn hátt eftir áliti þeirra sem eru til umfjöllunar, afla gagna sem hefðu getað varpað ljósi á sögu og stöðu mála né yfirhöfuð tilkynna þeim að þau séu viðfangsefni úttektarinnar. Þá hefði Lífi og sál mátt vera ljóst að niðurstöður úttektarinnar gætu verið til þess fallnar að hafa áhrif á úrslit kosninga í einu stærsta verkalýðsfélagi landsins, sem hlýtur að gera auknar kröfur til vandaðra og siðlegra vinnubragða. Spyrja má hvort skeytingarleysi um þessa þætti, hvort sem það stafar af ásetningi eða einfeldni, feli í sér brot á siðareglum sálfræðinga.“