„Við gerum þetta til að taka ábyrgð, bæði fyrir umhverfið og fyrir fólk,“ sagði Annika Strandhäll, umhverfisráðherra að sögn Jótlandspóstsins.
Geymslustaðurinn verður í klöppum nærri Forsmark kjarnorkuverinu sem er eitt þriggja kjarnorkuvera í Svíþjóð. Það er um 130 km norðan við Stokkhólm. Á næstu 50 árum verðum 6.000 járn- og steypuhylkjum komið fyrir í gangakerfi 500 metra undir yfirborði jarðar. Í hverju hylki verða tvö tonn af kjarnorkuúrgangi. Þegar göngin verða orðin full verður fyllt upp í þau með leir og þeim lokað og þau innsigluð.
„Þetta er afrakstur rúmlega 40 ára rannsókna og þróunar á aðferð sem á að vera örugg í allt að 100.000 ár,“ sagði Strandhäll.
Per Bolund, Græningi og fyrrum umhverfisráðherra, var ekki sáttur við þessa ákvörðun: „Það mikilvæga er ekki hversu lengi maður hefur rannsakað. Ábyrgð okkar er ekki bara að taka skjóta ákvörðun, heldur taka örugga ákvörðun,“ sagði hann í samtali við Sænska ríkissjónvarpið og vísaði þar til mats sérfræðinga sem telja að hylkin geti byrjað að leysast upp innan 100 ára.