Í gær tilkynnti Munira Mirza, aðalstjórnmálaráðgjafi hans, að hún væri hætt störfum fyrir Johnson. Það sama gerði Jack Doyle fjölmiðlafulltrúi hans.
Dan Rosenfield, starfsmannastjóri, hefur einnig skilað inn uppsagnarbréfi og það hefur Martin Reynolds, aðalritari Johnson, einnig gert.
Ástæðan fyrir uppsögn Mirza eru ummæli Johnson í þinginu á mánudaginn en þá sakaði hann Keir Starmer, leiðtoga Verkamannaflokksins, um að hafa ekki dregið einn versta kynferðisafbrotamann Bretlands fyrir dóm í fyrra starfi sínu en hann var yfirmaður hjá saksóknaraembætti. Það sem Johnson átti við var að Jimmy Savile, sjónvarps- og útvarpsmaður, var aldrei dreginn fyrir dóm fyrir brot sín. Mörg hundruð börn og ungmenni höfðu orðið fyrir barðinu á honum. Starmer svaraði þessum ásökunum Johnson á miðvikudaginn og sagði að hér væri um ekkert annað en „samsæriskenningar“ að ræða.
Johnson reyndi að draga í land með ásakanir sínar í gær en það dugði ekki til að Mirza héldi áfram störfum fyrir hann. Að sögn The Spectator sagði hún að það væri enginn grunnur fyrir ásökunum Johnson. Þetta hafi verið óviðeigandi ásakanir í tengslum við skelfilegt mál sem snýst um kynferðisofbeldi gagnvart börnum.