Flugfélagið PLAY hefur hafið miðasölu á flugi til New York í Bandaríkjunum. Fyrsta flug PLAY til New York verður þann 9. júní og boðið verður upp á daglegt flug. PLAY mun fljúga til New York Stewart International flugvallar og verður eina flugfélagið með millilandaflug til og frá vellinum en það er mikið fagnaðarefni fyrir þær milljónir íbúa sem búa á svæðinu.
Þetta er þriðji áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en flug til Boston hefst í maí og til Baltimore/Washington í apríl. Þessi stækkun á markaðssvæði PLAY er afar þýðingarmikið skref enda eru flutningar á tengifarþegum yfir Atlantshafið stór hluti af viðskiptamódeli félagsins.
„Þetta er þýðingarmikil þróun fyrir New York Stewart flugvöllinn, svæðið og viðskiptavini sem völlurinn þjónar. Með þessum tíðindum undirstrikum við, nú þegar kórónuveirufaraldurinn er á undanhaldi, þá sýn sem við höfum um að gera New York Stewart-flugvöllinn að leiðandi afli í millilanda- og innanlandsflugi og mikilvægi hans til að auka hagvöxt á svæðinu,“ segir Rick Cotton, framkvæmdastjóri New York og New Jersey hafna.
Þægilegur og ódýr flugvöllur og greið leið til Manhattan
Lendingargjöld á New York Stewart flugvelli eru 80% ódýrari en á öðrum flugvöllum í New York sem gerir það að verkum að PLAY mun geta boðið upp á lægstu fargjöldin á milli New York og Evrópu. Vegna lítillar umferðar á flugvellinum munu flugvélar PLAY eyða minni tíma í akstur á jörðu niðri og í biðflugi sem spara eldsneyti, kostnað, og minnkar útblástur. Allt eru þetta atriði sem falla vel að stefnu PLAY sem gengur út á að bjóða upp á ódýr fargjöld, einfalda og þægilega þjónustu með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
New York Stewart flugvöllur er í um 75 mínútna fjarlægð frá Times Square á Manhattan. Þó fjarlægðin á korti sé meiri frá New York Stewart flugvelli til Manhattan miðað við JFK flugvöll eða Newark flugvöll þá eru farþegar sem fara í gegnum þessa flugvelli svipað lengi að koma sér til Manhattan. Þá er afgreiðslutími í vegabréfaskoðun og töskuafhendingu mun styttri á New York Stewart flugvelli.
Völlurinn er lítill og þægilegur og farþegar eru að jafnaði í um 30 mínútur eða skemur að fara í gegnum flugvöllinn. Þá eru samgöngur frá New York Stewart flugvelli til Manhattan greiðar. Þar er hægt að taka bíla á leigu, finna leigubíla og lest sem fer til borgarinnar en rútur, sem verða tímasettar eftir brottförum og komum PLAY, eru ódýrasti kosturinn.
Mikill uppgangur í Hudson-dalnum
New York Stewart flugvöllur er í Hudson-dalnum, sem er það svæði New York ríkis þar sem íbúafjöldi hefur vaxið hvað hraðast á undanförnum árum og hefur fasteignaverð rokið upp á sama tíma. Flug PLAY frá New York Stewart flugvelli til Evrópu mun reynast mikil lyftistöng fyrir svæðið því nú þurfa íbúar ekki að leita langt til að komast til Íslands eða yfir Atlantshafið.
Þá er Woodbury Commons verslunarkjarninn í 25 mínútna akstursfjarlægð frá New York Stewart. Woodbury Commons er einn stærsti outlet-verslunarkjarni heims, með 220 verslanir og allar þær helstu sem finna má á Madison Avenue á Manhattan. Þrettán milljónir viðskiptavina heimsækja Woodbury Commons á hverju ári. Þá var stærsti Legoland skemmtigarður í heimi opnaður í fyrra í 25 mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum.
Hagstæð kjör á vellinum í takt við lággjaldastefnu PLAY
„Eftir að hafa kynnt okkur uppganginn á svæðinu í kringum flugvöllinn og kosti hans vorum við ekki lengi að stökkva á vagninn. Þessi ákvörðun gerir okkur kleift að bjóða upp á lægsta verðið á milli New York og Evrópu þar sem sem við höfum fengið sérstaklega góð kjör hjá vellinum því við erum eina flugfélagið með millilandaflug til og frá New York Stewart. Þá ríkir mikil eftirvænting og spenna fyrir starfsemi PLAY á New York Stewart meðal hagsmunaaðila á svæðinu þar sem hefur verið mikill uppgangur undanfarin ár,“ segir Birgir Jónsson forstjóri PLAY.
PLAY mun fljúga til 25 áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu á næsta ári. PLAY mun notast við sex Airbus A320neo og A321neo flugvélar næsta sumar. Airbus A320 fjölskyldan hentar rekstri PLAY sérstaklega vel. Stærð og drægni vélanna gera PLAY kleift að þjónusta stærri og minni markaði, nær og fjær, og þær eru sparneytnar á eldsneyti.