Biden sagði að Katar væri gott vinaríki og áreiðanlegur og duglegur samstarfsaðili. „Ég mun tilkynna þinginu að ég mun útnefna Katar sem mikilvægt bandalagsríki utan NATO til að sýna mikilvægi sambands okkar. Ég tel löngu kominn tíma til að gera þetta,“ sagði Biden.
Meðal ríkja sem hafa þessa stöðu og vinna með NATO eru Ísrael, Egyptaland, Brasilía, Japan, Suður-Kórea, Ástralía og Nýja-Sjáland.
Katar gegndi stóru hlutverki í brottflutningi erlendra ríkisborgara og Afgana frá Afganistan þegar fjölþjóðaherliðið yfirgaf landið og Talibanar tóku völdin.
Mörg þúsund manns voru flutt til Al Udeid, sem er bandarískur herflugvöllur í Katar, sem var tengimiðstöð fyrir þá sem voru fluttir frá Afganistan.
Annað málefni, sem var rætt á fundinum í gær, var ástandið á landamærum Rússlands og Úkraínu þar sem rúmlega 100.000 vígbúnir rússneskir hermenn virðast bíða þess að ráðast inn í Úkraínu.
Bandaríkin og önnur vestræn ríki hafa varað Rússa við afleiðingum þess að ráðast á Úkraínu og hóta hörðum efnahagsrefsiaðgerðum. En um leið eru áhyggjur af að Rússar muni svara refsiaðgerðum með að loka fyrir gasstreymi til Evrópu en aðildarríki ESB flytja um 40% af gasi sínu inn frá Rússlandi. Ef Rússar loka fyrir gasið er hugsanlegt að Katar geti hlaupið undir bagga en landið er stærsta gasvinnsluland heims. En til að af því geti orðið þarf að semja við núverandi kaupendur á gasi frá Katar um að Evrópa fái að kaupa gasið sem er ætlað þeim.