fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Vill að Sigurður svari fyrir „íþyngjandi mistök“ Þjóðskrár við fasteignamat – „Telur ráðherra það eðlilegt?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 31. janúar 2022 14:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, er krafinn svara um meint mistök Þjóðskrár Íslands við útreikning á fasteignamati.

Ragnar Thorarensen, sérfræðingur í fasteignamati, ritaði grein í desember sem birtist hjá Morgunblaðinu þar sem því er haldið fram að stór mistök hafi uppgötvast innanhúss hjá Þjóðskrá í janúar á síðasta ári. Mistökin eru sögð varða verðmat á bílastæðum í bílageymslum sem tengjast íbúðum í fjölbýlishúsum bæði á landsbyggðinni og í Reykjavík.

DV prófaði að fletta upp nokkrum slíkum eignum á Akureyri og sást þar að eignir í sama húsi, sem eru sömu stærðar, lækkuðu í fasteignamati 2021 ef þeim fylgdi stæði í bílageymslu, en hækkuðu ef slíku stæði var ekki fyrir að fara.

Ragnar benti á að þessum mistökum hafi óhjákvæmilega fylgt að þær eignir sem mistökin tóku til voru metnar hærri en þær áttu að vera og því hafi eigendur þeirra greitt meira í fasteignagjöld og stimpilgjöld en þeim bar.

Sjá einnig: Stór mistök sögð hafa verið uppgötvuð hjá Þjóðskrá í janúar en ekki leiðrétt – „Hér er verið, gegn betri vitund að brjóta á réttindum fasteignaeigenda“

DV leitaði svara frá Þjóðskrá vegna málsins þar sem óskað var eftir svörum um hvort mistök hafi átt sér stað. Þeirri spurningu var svarað með almennum hætti án þess að mistökin væru viðurkennd. Óskaði DV þá eftir skýrari svörum við eftirfarandi fyrirspurn:

  1. Ef um er að ræða mistök við útreikning fyrir 2021 sem er leiðréttur fyrir næsta ár:  

    1. Hvenær uppgötvuðust mistökin
    2. Var eigendum tilkynnt um mistök?
    3. Hvers vegna var ekki ráðist í að leiðrétta mat þegar mistökin komu í ljós?
    4. Fengu eigendur val um hvernig mistök yrðu leiðrétt? 
    5. Tekur væntanleg lækkun tillit til þessara mistaka, þ.e. verður lægri en hún hefði átt að verða út af þessum mistökum til að leiðrétta ofgreidd gjöld sem eigendur hafa greitt út af þessum mistökum.?
  2. Ef Þjóðskrá Íslands neitar að um mistök sé að ræða, á hverju byggist þessi lækkun þá og hvers vegna virðist hún aðeins eiga sér stað hjá íbúðum með bílageymslur? 

  3. Hvað er stæði í bílageymslu metið á hjá ykkur á næsta ári t.d. á Akureyri.

Svarið sem barst við ítrekaðri fyrirspurn var eftirfarandi:

„Allar breytingar á fasteignamati byggja á þeim gögnum sem liggja til grundvallar hverju sinni, sem er safn kaupsamninga til nokkurra ára.  Líkön eru endurskoðuð árlega til að endurspegla undirliggjandi kaupsamninga. Eins og segir í fyrra svari Þjóðskrár átti sér stað breyting við endurmat fasteignamats fyrir árið 2022 á 10 af 17 þáttum sem líkan fjölbýlis á landsbyggðinni tekur tillit til. Umræddar breytingar eru í takt við þróun kaupverðs á milli ára fyrir þær tegundir af fasteignum sem vísað er til.

Það má benda á að þegar mistök hafa átt sér stað í útreikningi fasteignamats hefur Þjóðskrá ekki veigrað sér við að senda út leiðréttingu. Má þar nefna dæmi frá 2019 þegar hluti eigna í fjölbýli fengu leiðréttingu á fasteignamati. Sjá: https://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2019/09/27/Fasteignaeigendur-fa-sent-leidrett-fasteignamat/

Jafnframt bendir Þjóðskrá á að eigendur hafa ávallt tök á að óska eftir endurmati fasteignamats. Í árlegri tilkynningu um nýtt fasteignamat er eigendum einnig bent á að hægt sé að gera athugasemdir við fasteignamatið.“

Ásthildur Lóa lagði fyrirspurn sína fram fyrir helgi. Þar er gengið út frá því að mistök hafi átt sér stað og ráðherra inntur svara um hvort og þá hvernig hafi verið brugðist við þeim.

„Hefur Þjóðskrá brugðist við og leiðrétt mistök sem urðu við ákvörðun fasteignamats 2021 vegna bílastæða í bílageymslum sem tengjast íbúðum í fjöleignarhúsum? Ef svo er, hvernig? Ef ekki, hvers vegna ekki og telur ráðherra þá koma til greina að beita sér fyrir því og hvernig?“

Veltir Ásthildur því fyrir sér hvort til greina komi að Sigurður beiti heimild sinni sem ráðherra til að krefja Þjóðskrá um að taka umræddar fasteignir til endurmats.

Eins spyr Ásthildur hvort það sé eðlilegt að fasteignaeigendur þurfi að sækja rétt sinn sjálfir og fara fram á endurmat fyrir árið 2021 vegna „íþyngjandi mistaka hjá Þjóðskrá Íslands“ eða hvort Þjóðskrá ætti sjálf að hafa frumkvæði að leiðréttingunni.

„Telur ráðherra það eðlilegt að fasteignaeigendur þurfi að sækja rétt sinn sjálfir og fara fram á endurmat fasteigna fyrir árið 2021 vegna íþyngjandi mistaka hjá Þjóðskrá Íslands, eða telur ráðherra réttara að stofnunin hefði sjálf frumkvæði að því að leiðrétta mistök sín?“

Eins er óskað eftir svörum um umfang mistakanna, fjárhæð sem virði bílastæða var ofmetið skipt eftir sveitarfélögum og hversu háar fjárhæðir megi ætla að þeir fasteignaeigendur sem mistökin taki til hafi ofgreitt í fasteignaskatta og stimpilgjöld. Eins hvort að ráðherra muni beita sér fyrir því að ofgreidd gjöld verði endurgreidd.

DV hefur nú aftur óskað eftir svörum frá Þjóðskrá þar sem farið er fram á að stofnunin svari því hvort mistök hafi átt sér stað með já eða nei.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar