Kínverjar, sem losa þjóða mest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, hafa verið undir þrýstingi um að gera meira til að takast á við hnattræna hlýnun.
En kínversk stjórnvöld hafa greinilega áhyggjur af efnahagsmálunum og þar með stöðunni á vinnumarkaði og hagvexti. Fram undan er stór ráðstefna kommúnistaflokksins þar sem reiknað er með að völd Xi verði aukin og honum tryggð áframhaldandi seta í forsetaembættinu. Það ýtir eflaust einnig undir vilja yfirvalda til að tryggja góðan efnahag í landinu.
Xi hafði áður sagt að Kínverjar ætli sér að taka duglega á loftslagsmálunum og draga mikið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum en nú virðist hann heldur vera að bakka með þær yfirlýsingar. Þá má nefna að kolavinnsla og kolanotkun Kínverja jókst mikið á síðasta ári en það telst nú ekki vera ávinningur fyrir umhverfið.