The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að Cross Cultural Human Rights Center (CCHRC) við háskólann hafi fengið árleg framlög á bilinu 250.000 til 300.000 evrur frá Southwest University of Political Science and Law í Chongqing í Kína síðustu árin.
Rannsókn hollensku fréttastofunnar NOS leiddi nýlega í ljós að CCHRC hafi meðal annars notað styrkinn til að fjármagna útgáfu fréttabréfs, skipuleggja ráðstefnur og til reksturs vefsíðu en þar hafa verið birtar nokkrar færslur þar sem gagnrýni Vesturlanda á mannréttindabrot í Kína er hafnað.
Til dæmis var birt grein á vefsíðunni í október 2020 þar sem fram kom að háskólafólk tengt CCHRC hefði nýlega heimsótt fjórar borgir í Xinjiang héraði og komist að þeirri niðurstöðu að „Úígúrum eða öðrum minnihlutahópum væri ekki mismunað í héraðinu“.
Einnig var haft eftir Tom Zwart, prófessor í mannréttindum við háskólann í Utrecht og forseta CCHRC, í samtali við kínverska ríkissjónvarpsstöð að líta verði á mannréttindi í Kína „í samhengi við innlendar aðstæður, ekki sé hægt að herma eftir Vesturlöndum“.
Petar Peverelli, sem tengist CCHRC, hefur sagt að fréttir um að Úígúrum sé haldið í þrælkunarbúðum séu ekkert annað en „orðrómur“ og að það sé í tísku að gagnrýna Kína.