Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér formennsku í verkalýðsfélaginu Eflingu í fyrra, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns á ný. Kjarninn greinir frá.
Sólveig Anna er oddviti Baráttulistans en sá hópur sækist eftir því að stýra Eflingu. Stjórnarkjör í Eflingu hefst 9. febrúar næstkomandi og stendur til 15. febrúar.
Baráttulistinn er sagður vilja stórauka áhrif Eflingar innan verkalýðshreyfingarinnar, taka upp sjóðsfélagslýðræði í lífeyrissjóðum og standa alfarið gegn innleiðingu á SALEK, sem er samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga.
„Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu láglaunafólks. Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt. Skipulögð og einbeitt barátta skilar árangri,“ segir á vefsíðu Baráttulistans (Fréttablaðið greindi frá).