Hrannar Bragi Eyjólfsson, lögfræðingur hjá Almenna lífeyrissjóðnum og leikmaður Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í handbolta, sækist eftir 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram 5. mars næstkomandi.
Hrannar Bragi er 26 ára gamall, fæddur og uppalinn Garðbæingur. Hann er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Áður gekk hann í leik- og grunnskóla í Garðabæ og er stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Sambýliskona Hrannars Braga er Ásdís Rún Ragnarsdóttir, 26 ára meistaranemi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands og deildarstjóri á leikskólanum Litlu-Ásum í Garðabæ. Ásdís er einnig fædd og uppalin í Garðabæ.
Hrannar Bragi hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat á lista flokksins í Garðabæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hefur setið undanfarin fjögur ár í menningar- og safnanefnd Garðabæjar. Þá sat Hrannar Bragi í stjórn Hugins, félagi ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, frá 2017-2021, og í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2019-2021.
„Ég er þeirrar skoðunar að traustur fjárhagur sé forsenda framþróunar. Það er því mikilvægt að við höldum áfram að halda vel utan um fjármál Garðabæjar og sýnum ráðdeild og hagsýni í rekstri bæjarins. Ég mun beita mér fyrir því að Garðabær verði í fararbroddi í leikskólamálum með því að tryggja að börn 12 mánaða og yngri hljóti pláss á leikskólum nærri heimilum sínum. Þá eru mér samgöngumál og öryggismál þeim tengd afar hugleikin. Sem eigandi íbúðar í Urriðaholti er mér mikið í mun að börnum og ungmennum séu tryggðar öruggar samgöngur yfir í aðra bæjarhluta og geti þannig sótt í þjónustu og félagsskap á íþróttasvæðum bæjarins. Ungt fólk þarf rödd á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Reynsla er mikilvæg – en nýliðun líka. Ég býð stoltur fram krafta mína sem málsvari ungs fólks í bænum, en ekki síður sem baráttumaður öflugrar grunnþjónustu fyrir bæjarbúa alla,“ segir Hrannar Bragi í tilkynningu.