Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Friðþór Eydal, fyrrum upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sagði að Bandaríkjamenn hafi aukið viðveru sína hér á landi verulega síðan þeir tóku nýjar kafbátaleitarflugvélar í notkun fyrir nokkrum árum. „Nú í seinni tíð hefur herinn verið með allt upp undir sjö leitarvélar í einu, en hverri vél fylgir ekki aðeins tíu manna áhöfn heldur og fjölmennt stuðningslið. Það má segja að herinn sé að byggja upp aðstöðu sína á vellinum frá grunni eftir að hann yfirgaf völlinn haustið 2006, en þessum nýju kafbátaleitarvélum fylgir mikil þjónusta – og hún fer vaxandi,“ er haft eftir honum.
Albert Jónsson, fyrrum sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum, sagði að fleiri æfingar og eftirlit hafi valdið auknum umsvifum á vellinum. Til dæmis hafi verið flogið daglega frá Keflavík austur yfir Eystrasalt vegna deilna Rússa og Úkraínumanna.