Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir honum að dæmi um þetta megi sjá hjá austurrískum og frönskum stjórnvöldum sem hafi gengið fram af mikilli hörku gagnvart óbólusettum.
Hann benti á að þeir sem mótmæli aðgerðum yfirvalda séu ekki einsleitur hópur. Margir séu á móti sóttvarnaaðgerðum vegna þeirra frelsisskerðinga sem fylgja þeim, aðrir vegna þeirrar mismununar sem bólusettir og óbólusettir sæti og enn aðrir telji bólusetningar skaðlegar og hallist að samsæriskenningum.
Hann sagði ekki ljóst hvað verði um þessa hópa að faraldrinum loknum. „Popúlistar hafa alltaf nýtt sér samsæriskenningar og jafnvel staðið að dreifingu þeirra. Það er óljóst hvernig þeir muni nýta sér endalok þessa faraldurs sér til framdráttar,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að þegar faraldrinum lýkur muni bólusetningarstaða hugsanlega ekki skipta máli og þar með hverfi gjáin á milli bólusettra og óbólusettra en það sé bjartsýn spá og einnig sé hugsanlegt að málin þróist á annan veg. Bólusetningarvottorð geti hugsanlega verið komin til að vera og þá sé kominn jaðarsettur hópur sem eigi minni aðgang að samfélaginu en aðrir.