Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að embættismenn hafi lagt áherslu á að sendiráðið í Kyiv verði áfram opið og að tilkynningin jafngildi því ekki að verið sé að rýma sendiráðið og flytja alla á brott. Embættismennirnir sögðu einnig að þessi aðgerði hafi verið til íhugunar um hríð og sé ekki merki um að Bandaríkin séu að draga úr stuðningi við Úkraínu.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, funduð á föstudaginn um málefni Úkraínu en engin niðurstaða varð af þeim fundi.
Í yfirlýsingu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu segir að upplýsingar liggi fyrir um að Rússar séu að undirbúa umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gagnvart Úkraínu.
Rússar hafa þvertekið fyrir að til standi að ráðast á Úkraínu en afneitunum þeirra er almennt ekki trúað á alþjóðavettvangi enda vandséð af hverju þeir hafa stefnt rúmlega 100.000 hermönnum og miklu magni hernaðartóla að landamærum ríkjanna ef þeir hyggja ekki á aðgerðir gegn Úkraínu. Þeir hafa sakað Bandaríkin og NATO um að kynda undir ófriðarbáli.