CNN segir að helstu hernaðarráðgjafar Biden hafi fundað með honum í Camp David, sem er sumarhús forseta Bandaríkjanna, um helgina. Einnig voru Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, og Mark Milley, hershöfðingi og æðsti herforingi landsins, með á fundinum en þó í gegnum fjarfundabúnað.
CNN segir að rætt hafi verið um að senda hersveitir til Evrópu og farið yfir nýjustu upplýsingar um stöðu mála varðandi málefni Úkraínu og hugsanleg viðbrögð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra við innrás Rússa í landið.
The New York Times segir að reiknað sé með að Biden taki ákvörðun í málinu nú í upphafi vikunnar.
Einn af þeim möguleikum sem var viðraður er að 1.000 til 5.000 hermenn verði sendir til Austur-Evrópu og Eystrasaltsríkjanna og að þeir verði reiðubúnir til að flytja bandaríska ríkisborgara frá Úkraínu ef þörf krefur.
Markmiðið með að senda liðsauka til Austur-Evrópu verður að styrkja herafla NATO þar og sýna bandalagsþjóðunum fram á staðfestu Bandaríkjanna. Til greina kemur að færa hersveitir til innan Evrópu eða senda nýjar til álfunnar. Ef Rússar ráðast á Úkraínu sé fullt tilefni til að færa hersveitir til innan álfunnar og fjölga í herliðinu.