Hún hefur sjálf lengi verið talsmaður þess að þetta vopn verði notað en Olaf Scholz, kanslari, hefur verið því mótfallinn en á þriðjudaginn opnaði hann á möguleikann á beitingu þess að sögn Danska ríkisútvarpsins (DR).
Vopnið sem um ræðir er gasleiðslan Nord Stream 2 sem mun flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Leiðslan er tilbúin til notkunar en enn vantar samþykki þýskra yfirvalda fyrir að taka hana í notkun. Leiðslan mun tvöfalda gassölu Rússa til Þjóðverja.
Þeirri spurningu hefur verið velt upp hvort Þjóðverjar geti virkilega opnað fyrir leiðsluna ef Rússar ráðast á Úkraínu. Fjöldi annarra vestrænna ríkja hefur sagt að það geti þeir ekki, þar á meðal Bandaríkin. Gasleiðslan mun auka tök Rússlands á Evrópu, sem eru sterk fyrir, að mati þeirra sem vilja ekki að leiðslan verði tekin í notkun. Þessu er Annalena Baerbock sammála. Þegar hún var rétt svo sest í stól utanríkisráðherra í desember sagði hún að ef staðan á landamærum Rússlands og Úkraínu versni verði leiðslan ekki tekin í notkun.
Scholz hafði allt þar til á þriðjudaginn hafnað þessari hugmynd og sagt leiðsluna vera „einkaframtak“. En á fréttamannafundi á þriðjudaginn var hann spurður út í leiðsluna og hugsanlegt stríð og þá opnaði hann á möguleikann á að Þjóðverjar muni ekki heimila notkun leiðslunnar.
Það verður dýrt fyrir Þjóðverja að láta leiðsluna vera ónotaða því þeir hafa þörf fyrir gasið, ekki síst í ljósi hækkandi orkuverðs og þess að þeir eru að draga úr kolanotkun sinni og notkun kjarnorku. En það mun einnig verða dýrt fyrir Rússa ef leiðslan verður ekki tekin í notkun. Gazprom hefur eytt miklum fjármunum í lagningu hennar og tekjur þeirra af gassölu munu verða miklu minni en áætlað hefur verið ef leiðslan verður ekki tekin í notkun.
Á fréttamannafundi á þriðjudaginn sagði Lavrov að hann hefði gert Þjóðverjum ljóst að engin pólitík tengist gasleiðslunni og það geti komið þeim í koll að tengja leiðsluna við pólitík. Baerbock sagði rétt að rússneskt gas sé mikilvægt fyrir Evrópu en það muni hafa „viðeigandi afleiðingar“ fyrir Nord Stream 2 ef Rússar nota orkumál sem vopn. Hún sagðist einnig eiga erfitt með að líta á veru 100.000 rússneskra hermanna við úkraínsku landamærin sem annað en ógn, þeir væru ekki þar að ástæðulausu.