CNN bendir á að það sé engin tilviljun að USS Nevada hafi lagst við bryggju á Guam, með því sé verið að senda Kína og Norður-Kóru skýr skilaboð um mátt bandaríska hersins. Spenna hefur farið vaxandi á milli Bandaríkjanna og Kína síðustu misseri og eldflaugabrölt Norður-Kóreu hefur einnig aukið spennuna í Asíu. Kafbátur af þessari tegund kom síðast til Guam 2016 og þar áður á níunda áratugnum, svo þeir eru sjaldséðir utan heimahafna sinna.
Kafbátar af Ohiogerð eru venjulega í leynilegum verkefnum í heimshöfunum og ekkert er gefið upp um staðsetningu þeirra. Thomas Shugart, fyrrum kafbátaskipstjóri hjá bandaríska sjóhernum og núverandi sérfræðingur hjá Center for a New American Security, sagði að með því að láta USS Nevada birtast á Guam sé verið að senda „skilaboð.“ „Við getum komið 100 kjarnaoddum fyrir á þröskuldinum hjá þér og þú veist ekki af því og getur ekki gert mikið við því,“ sagði hann í samtali við CNN.
Ferðir og verkefni hinna 14 kafbáta af Ohiogerð eru alltaf leynileg og vel er passað upp á allar upplýsingar um kafbátana og ferðir þeirra. Þeir fara venjulega í 77 daga ferðir um heimshöfin áður en þeir koma í heimahafnir sínar í Bangor í Washington eða Kings Bay í Georgíu til viðhalds, áhafnaskipta og birgðatöku.
Í yfirlýsingu frá bandaríska sjóhernum segir að koma USS Nevada til Guam tengist skuldbindingum Bandaríkjanna við þennan heimshluta.