Um miðjan mars hefst stærsta heræfingin, síðan kalda stríðinu lauk, norðan heimskautsbaugs en þá munu 35.000 hermenn frá 28 NATO-ríkjum æfa hvernig NATO mun koma Norðmönnum til aðstoðar ef á þá verður ráðist og dylst fáum að þar er átt við rússneska árás. Æfingin heitir „Operation Cold Respons“ og mun að mestu snúast um aðgerðir úr lofti og á sjó.
Jótlandspósturinn segir að Bandaríkin og Bretland sendi flugmóðurskip til æfingarinnar auk tilheyrandi flotadeilda. Bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman tekur stefnuna til Noregs um miðjan febrúar til að taka þátt í æfingunni en skipið er nú í austanverðu Miðjarðarhafi vegna stöðunnar í Úkraínu.
Æfingin hefur verið lengi í undirbúningi og er ekki bein afleiðing af spennunni á úkraínsku landamærunum.
Svíar eru ekki aðilar að NATO en eiga í margvíslegu samstarfi við bandalagið. Hin aukna ágengni Rússa í nærumhverfi sínu virðist vera að ýta Svíum nær aðild að NATO en þar í landi eru margir, sem hafa verið mótfallnir aðild, farnir að ræða opinskátt um að hugsanlega þurfi Svíar að sækja um aðild að bandalaginu.