Magnús Júlíusson, sem í desember var ráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráherra, stofnaði fyrirtækið Íslenska orkumiðlun ehf. ásamt Bjarna Ármannssyni fjárfesti, en það fyrirtæki var svo selt til Festi, eiganda N1, snemma ársi 2020. Eftir söluna gegndi Magnús svo stöðu forstöðumanns orkusviðs hjá N1 ehf.
N1 hefur síðustu daga setið undir harðri gagnrýni fyrir að rukka hærra gjald en samkvæmt birtri verðskrá af þeim viðskiptavinum sem sjálfkrafa hafa verið skráðir í viðskipti við fyrirtækið.
N1 baðst í gær afsökunar á ofrukkuninni, en þó hafði framkvæmdastjóri N1 rafmagns, Hinrik Örn Bjarnason, reynt að réttlæta framkomuna með vísan til þess að dýrara væri að taka við viðskiptum sem sjálfkrafa væru skráðir hjá fyrirtækinu samkvæmt reglum stjórnvalda um svonefnda þrautavaraleið. Allir viðskiptavinir sem hafa komið inn í gegnum þrautavarleiðina hafa greitt allt rúmlega 70 prósent hærra verð fyrir rafmagn en það lægsta sem fyrirtækið bíður upp á samkvæmt birtri gjaldskrá, eða allt frá sumrinu 2020, þegar Magnús Júlíusson var enn forstöðumaður orkusviðs N1.
Magnús var ennfremur skipaður í starfshóp um orkustefnu árið 2018, en hann var tilnefndur í hópinn af Bjarna Benediktssyni. Magnús var einnig áður í sambandi við dóttur Bjarna, Margréti sem og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, vekur athygli á þessu á Facebook:
„Það vekur alveg merkilega litla athygli að Magnús Júlíusson sem stýrði Íslenskri orkumiðlun (nú er N1 orka) sem svindlaði á neytendum og misnotaði reglur um orkusölu til þrautavara er einmitt nýráðinn aðstoðarmaður Áslaugar Örnu. Sami Magnús er einmitt fyrrverandi tengdasonur Bjarna og var skipaður í starfshóp um Orkustefnu til 2050 af fjármálaráðherra. Já og svo var hann auðvitað formaður SUS. merkilegt hvernig tekist hefur að horfa algjörlega framhjá því að arkitektinn er aðstoðarmaður ráðherra.“
Atli sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að um sé að ræða ansi áhugaverðan anga af þessu merkilega máli.
„Ég er ekki að segja að Magnús megi ekki vera aðstoðarmaður ráðherra en það verður að vekja athygli að framkvæmdastjóri þessa fyrirtækis, sem er nýráðinn aðstoðarmaður ráðherra, tók þátt í mynda orkustefnu til 2050 og var skipaður af fjármálaráðherra, en hann var einu sinni tengdasonur sama ráðherra og formaður SUS. Ráðherra mætti svara fyrir um að hvaða leyti ætlar Magnús að ráðleggja ráðherra?“
Í sama samtali furðaði Atli sig á afsökunarbeiðni N1 Rafmagns í gær.
„Þetta var eins masterclass í hvernig þú átt ekki að biðjast afsökunar. Maður verður að hrósa íslensku PR fólki fyrir að hafa samið svona furðulega afsökunarbeiðni“
Sjá einnig: Afsökunarbeiðni frá N1 – Heita endurgreiðslu