Ólöf Skaftadóttir, blaðamaður Innherja, fagnar ákvörðun stjórnvalda um að virða tillögur sóttvarnalæknis um að seinka starfi leik- og grunnskóla vegna Covid-19 faraldursins að vettugi. Þetta kemur fram í grein hennar sem birtist á Innherja í gær. Ólöf segir að ákvörðun stjórnvalda um að skauta fram hjá þessari tilteknu tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis hafi markað tímamót í faraldrinum.
Grein Ólafar má sjá hér í heild sinni.
Hingað til hafa stjórnvöld farið að ráðleggingum sóttvarnarlæknis, en rauði þráðurinn allt frá upphafi faraldursins hefur verið sá að hagsmunum yngri kynslóða skuli fórnað fyrir þeirra sem eldri eru. Börn, unglingar og ungt fólk hafa þurft að þola fordæmalausa skerðingu á skólastarfi, félagslífi, íþróttaiðkun og svo mætti áfram telja.
Framhalds- og háskólanemar sem hófu nám haustið 2019 hafa varla enn upplifað hefðbundið skólastarf eða félagslíf á þeim tíma í lífinu sem margir telja skemmtilegustu og mest mótandi árin. Það er ekki lítil fórn að færa.
Þá segir Ólöf kostnað vegna gríðarlegs inngrips í atvinnulífið ótalinn. „Gott og vel er að tala um lokunarstyrki, samtakamátt og þess háttar en vanræktir innviðir, tekjufall til skamms tíma og skuldsetning til lengri tíma verður ekki lagfærð með innihaldslausu hjali um samstöðu og skemmtanir innandyra,“ skrifar Ólöf áfram. „Reikningurinn kemur um síðir og hann mun að langstærstum hluta lenda hjá þeim sem yngri eru.“
Unga fólkið á sem sagt ekki bara að verða af þjónustu og lífsgæðum sem hingað til hafa verið talin sjálfsögð heldur eiga þau líka að greiða fyrir herlegheitin. Allt þetta vegna sjúkdóms sem veldur sáralitlum einkennum hjá ungu fólki og engum veikindum sem heitið geta – nema í algerum undantekningartilvikum.
Þá gagnrýnir Ólöf stjórnvöld fyrir að hafa gripið til nýjustu takmarkana. Segir hún þær hafa verið til málamynda og að lokum reynst tilgangslausar og gríðarlega kostnaðarsamar. „Dagleg smit eru þrátt fyrir það ríflega þúsund, og 100 milljónum eytt daglega í að prófa einkennalausa eða lítið veika í stórum stíl. Það eru þrír milljarðar á mánuði, þrjátíu og sex á ársgrundvelli. Hvers konar grettistaki mætti lyfta til að bæta aðstöðu, verklag og stjórn á okkar illa reknu spítölum fyrir þá fjármuni? Búa til innviði sem nýtast ungu fólki til lengri tíma.“
Hver tekur eiginlega þessar ákvarðanir?
Þar komum við kannski að kjarna málsins.
Pólitíkin hefur brugðist í málinu. Leiðtogaskorturinn er alger. Engum af hinu pólitíska sviði hefur auðnast að tala kjark í fólk. Þeir sem hafa þó reynt hafa þurft að sitja undir gaslýsingum frá hagsmunatalsmönnum með gjallarhornssýki fyrir vikið.
Sökin er líka fjölmiðlanna sem hafa lapið upp smittölur og aðrar samhengislausar upplýsingar gagnrýnislaust. Er það nema von að samfélagið sé skelkað þegar fréttasíður eru veggfóðraðar af eilífum frásögnum um veikindi og andlát. Hvar eru þessar fréttir þegar inflúensufaraldrar ríða yfir?
Ólöf segir þá brýnni viðfangsefni blasa við samfélagi manna hér á landi en Covid faraldurinn. „Krakkar eru læstir inni í stórum stíl í sérsniðnum tölvuleikjastólum með snakkpokann við höndina. Geðheilsa á undir högg að sækja. En stjórnvöld leggja alla áherslu á að vernda þá sem yngri eru fyrir því sem í tilviki þeirra er meinlaus pest,“ bætir hún við og skrifar svo að lokum:
Nú er mál að linni og kominn tími til að ungt fólk hætti að setja hagsmuni sína möglunarlaust til hliðar. Vonandi er ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi skólahald vísir af því sem koma skal.
Setjum unga fólkið í fyrsta sæti. Hvetjum það til að hittast, hreyfa sig, brasa og lenda í hnjaski. Það fylgir því áhætta að fara úr húsi að morgni og COVID er þar aftarlega á lista yfir áhyggjuefni.
Hættum þessu.