Aftonbladet segir að nú hafi NATO einnig brugðist við og sent HNLMS Rotterdam inn í Eystrasalt og sé skipið nú nærri Gotlandi. „Við erum að sýna að við erum þarna og til að sýna samstöðu,“ sagði talsmaður NATO í samtali við Aftonbladet.
HNLMS Rotterdam er frá hollenska flotanum. Það sigldi í gegnum Eyrarsund á laugardaginn og er nú sunnan við Borgundarhólm, sem er dönsk eyja. Skipið er flaggskip hraðaðgerðasveita NATO, Standing NATO Maritime Group 1, og er byggt til að þyrlur geti lent á því og landgönguskip lagt að því.
NATO segir að skipið sé nú í Eystrasalti til að fylgjast með stöðu mála þar.
Aftonbladet hefur eftir Magnus Christiansson, hjá sænska Varnarmálaháskólanum, að það sé ekki óvenjulegt að NATO sé með skip í Eystrasalti. Hins vegar sé tímasetningin núna tengd hinni miklu spennu sem ríkir í Evrópu vegna liðsafnaðar Rússa við úkraínsku landamærin og krafna þeirra til NATO um að bandalagið taki ekki fleiri ríki inn.