Björn Jón skrifar:
Fátt veit ég skemmtilegra en að lesa góðar ævisögur og sem áhugamaður um pólitík er ánægjan tvöföld þegar sagan segir frá stjórnmálamönnum. Því miður er orðið fátítt að íslenskir pólitíkusar greini frá lífshlaupi sínu og viðhorfum í ritum og ég var því fullur eftirvæntingar að lesa bók Ögmundar Jónassonar, Rauða þráðinn, sem út kom nú í byrjun árs. (Goethe talar um rauða þráðinn (þ. der rote Faden) í Die Wahlverwandtschaften, þráð sem var fléttaður í kaðla breska sjóhersins svo þeir yrðu auðkenndir sem eign ríkisins, „ríkisþráðurinn“).
Ögmund er auðvitað óþarft að kynna en ég man fyrst eftir að hafa hitt hann í byrjun aldarinnar þegar hann kenndi mér í Háskólanum. Pensúmið var ídeólígía 19. aldar. Hann var frábær í hlutverki kennarans, auðvitað okkur öllum kunnur sem fréttamaður, verkalýðsleiðtogi og alþingismaður. Leiftrandi áhugi hans á efninu smitaði heldur betur út frá sér. Í einhverri kennslustundinni gerði ég athugasemdir við sumar útlegginga hans sem mér fundust fulllitaðar af vinstri róttækni (en kennarar hafa líka lífsafstöðu sem þarf stundum að fá að skína í gegn). Ég man sérstaklega eftir því að hann tók aðfinnslum mínum vel og lét þess getið að það væri jafnvel eitthvað til í þeim!
Endurtekið stef í sögu vinstrihreyfingarinnar á Ísland er sameining hennar en þessar tilraunir til sameiningar hafa alltaf leitt af sér meiri klofning. Svo er að sjá sem Ögmundur hafi aldrei haft trú á þeirri hugmynd að vinstrimenn ættu að sameinast í einum flokki. Tveir meginþræðir hreyfingar þeirra, annar sósíalískur hinn sósíaldemókratískur, hefðu verið auðgreinanlegir. Ef til vill var hugmyndafræðilegur ágreiningur einfaldlega of mikill til að unnt væri að ná mönnum saman í einn stóran vinstriflokk. Stundum var sagt hér áður fyrr að Alþýðuflokkurinn væri meira að segja kominn hægra megin Sjálfstæðisflokk, alltént í efnahagslegu tilliti. En þrátt fyrir meiri klofning vinstrimanna hér en í nágrannalöndunum bendir Ögmundur á að hreyfing þeirra hafi verið firnasterk en hann gerir líka ýmsa jaðarhópa róttæklinga að umtalsefni.
Sjálfur var hann á námsárum í Edinborg félagi í flokki sem nefndist Communist Organization of the British Isles, flokkur sem Sunday Times skilgreindi sem „lunatic left“. Löngum hafa menn bent á þá hættu sem skapast þegar fylgispekt manna við hugmyndastefnur verður öllu æðri — hún fer að líkjast hreinum átrúnaði — trúarbrögðum — og af bókinni að dæma hefur Ögmundur gert sér greint fyrir þessu þegar hann dirfðist til að gera athugasemd við þær útleggingar sem fluttar voru af helgiritum kommúnismans á fundum umrædds flokks í Edinborg:
„Varð þá löng þögn og djúp. Þar til aðalritari sagðist vilja leiðrétta fram kominn misskilning. Mín skoðun var með öðrum orðum misskilningur. Þar með skildu leiðir.“
Ögmundur varar í bókinni við þeirri hættu að stjórnmálamenn firri sig ábyrgð á sinni eigin stefnu undir því yfirskini að gera þurfi málamiðlanir. Með þessu fjari undan trú fólks á fulltrúalýðræðinu. Stjórnmálamenn verði að vera reiðubúnir að standa og falla með skoðunum sínum hvað grundvallarviðhorf snertir. Ögmundur segir gjána milli almennings og stjórnmálamanna fara breikkandi og skrifar:
„Fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar stórvelda sem hafa allt til alls opna ekki munninn á samkomum án þess að fá vel greitt fyrir, æðstu ráðamenn taka að sér málaliðastörf fyrir ríki sem þeir höfðu gagnrýnt hástöfum meðan þeir sátu á valdastóli og talsmenn jafnaðarmennsku og heilbrigðismála á heimsvísu eru að starfsdegi loknum á mála hjá framleiðendum sem selja varning sem gengur þvert á það sem fyrr var boðað.“
Í þessu sambandi má nefna fyrrum leiðtoga norska Verkamannaflokksins og forsætisráðherra, Gro Harlem Brundtland, sem hóf að vinna fyrir PepsiCo eftir að hún lét af störfum sem framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, er á mála hjá Kínverjum, og kollegi hans fyrrverandi, Tony Blair, hefur gerst talsmaður einræðisafla. Og ekki má gleyma Gerhard Schröder, fyrrv. kanslara og leiðtoga þýskra sósíaldemókrata, sem gætir hagsmuna rússneska ríkisolíufélagins Gazprom. Er nema von að almenningur missi trú á stjórnmálamönnum sem falbjóða sig með þessum hætti?
Sjálfur kvaðst Ögmundur hafa látið af þeirri framfaratrú sem hann hefði aðhyllst sem ungur maður — reynslan hefði kennt sér að ekki væri hægt að ganga að því sem vísu að allt horfði til betri vegar með tímanum. Hver dagur væri áminning um nauðsyn gagnrýnnar umræðu og framfarir yrðu ekki sjálfkrafa. Öll yrðum við að vera sífellt leitandi og gagnrýninn — rýna í samtímann og söguna til að læra af og nýta. Þannig gætum við öðlast skýrari sýn til að móta af viti markmið sem stefnt skyldi að. Og Ögmundur vísar til skrifa forngríska sagnaritarans Þúkidítesar um Pelópsskagastríðið þar sem hinn mikli herforingi Períkles bendir á að samfélög væru sterk
„sem byggðu á ríkri samfélagsábyrgð og samkennd, ást á frelsi og vilja einstaklinganna til að verja frelsið og axla ábyrgð. Enginn gæti unnið sigur á hugrekki og óttaleysi sem þannig væri sprottið.“
Þegar öllu er á botninn hvolft eru grundvallarviðhorf okkar langflestra reist á sömu arfleifðinni, sömu gildum þar sem feta þarf einstigi milli frelsis einstaklingsins og samfélagslegrar ábyrgðar. Ekki má drepa í dróma athafnaþrá borgaranna en þeir verða engu að síður að játast undir reglur samfélagsins svo það fái þrifist. Um leiðir og útfærslur að þessu marki er grundvallarágreiningur og þá hallast menn annað hvort meira í átt að einstaklingsfrelsinu eða fyllast oftrú á ríkisvaldinu og í því síðarnefnda er mesta hættan fólgin.