Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Ólafi Þ. Harðarsyni, stjórnmálafræðingi, að hann telji að hneykslismálið geti haft skaðleg áhrif á Sjálfstæðisflokkinn. Hann benti á að Klaustursmálið hafi haft mikil áhrif á fylgi Miðflokksins fyrst eftir að það kom upp en síðan hafi það braggast á ný en síðan hrunið í kosningunum á síðasta ári. Hugsanlega hafi Klaustursmálið átt hlut að máli varðandi fylgistapið en aðrar skýringar séu einnig hugsanlegar. Hann segir að bæði málin eigi það sameiginlegt að niðrandi framkoma gagnvart konum hafi vakið mikla reiði almennings.
Hvort málið muni skaða Sjálfstæðisflokkinn sagði Ólafur að það sé hugsanlegt. „Augljóslega hjálpar þetta ekki flokknum. Spurningin er hvort málið hefur áhrif á einhverja stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks. Viðhorf þeirra eru ekki endilega þau sömu og viðhorf stuðningsmanna annarra flokka,“ sagði hann.
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, sagðist telja að afleiðingarnar verði frekar persónubundnar fyrir hlutaðeigandi en að málið skaði Sjálfstæðisflokkinn, ekki sé hægt að yfirfæra þetta mál yfir á heilan stjórnmálaflokk. Aftur á móti geti málið hugsanlega haft áhrif á valdastöðu miðaldra karla í stjórnunarstöðum.
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, sagðist ekki átta sig á hugsanlegum pólitískum áhrifum málsins. Það geti hugsanlega skaðað flokkinn til skamms tíma en óvíst sé um langtímaafleiðingar þar sem viðkomandi séu ekki í forystu flokksins.