Fjögur hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir frambjóðaendur í oddvitasæti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi í bæjar- og sveitarstjórnarkosningunum í vor. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri ætlar ekki að gefa kost á sér áfram. Innherji nefnir til sögunnar þau Ragnhildi Jónsdóttur, Árna Helgason, Magnús Örn Guðmundsson og Þór Sigurgeirsson sem líklega kandidata.
Árni Helgason, lögmaður, pistlahöfundur og uppistandari, birti tilkynningu á Facebook í dag þess efnis að hann hyggist ekki gefa kost á sér. Árni segir:
„Kæru vinir – undanfarið hafa ýmsir spurt mig út í þetta mál, þ.e. hvort ég ætli í prófkjör hér á Nesinu. Það er einhvern veginn þannig að þegar þetta kemur til tals byrja ósjálfrátt endalausir frasar að renna upp úr manni, fólk er að koma að máli við mann, þá leggst maður undir feldinn og maður er að velta ýmsu fyrir sér. Í allri einlægni þá hefur mér þótt afar vænt um að fólk telji mig allavega koma til greina í þetta verkefni en að því sögðu ætla ég ekki að gefa kost á mér, að minnsta kosti ekki í þetta sinn (svo maður haldi nú áfram í frösunum).
Óska öllum sem henda sér í slaginn góðs gengis.“