Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur nú beðist afsökunar á framkomu sinn í kappræðunum á Stöð 2 síðastliðið haust í aðdraganda Alþingiskosninga, en þar greip hann fram í fyrir öðrum frambjóðendum.
Afsökunarbeiðnina birti hann í Morgunblaðinu í dag en ekki er ljóst hvers vegna þingmaðurinn er að biðjast afsökunar núna, um þremur mánuðum eftir að kosningasjónvarpið fór í loftið.
„Það var í kosningasjónvarpinu á Stöð tvö. Ég hafði aldrei verið í kosningasjónvarpi áður, bara horft á það og var nú í tilbúinn til þess að útskýra frábæra kosningastefnu Pírata í beinni útsendingu ásamt frambjóðendum hinna flokkanna. En hvað gerðist? Eitthvað allt annað en ég bjóst við.“
Björn segir að hann hafi endað með að vera ókurteis og því sjái hann eftir og þó að sökin sé alfarið hans sjálfs vilji hann útskýra málið nánar:
„Kannski hefði þetta ekki átt að koma mér á óvart. Kannski var þetta vegna þess að ég hef aldrei verið með Stöð tvö og ekki fylgst nægilega vel með fyrirkomulaginu á þessum umræðum þar áður. Hver svo sem orsökin var þá var afleiðingin sú að ég var ókurteis og ég sé eftir því. Það er ekki neinum öðrum að kenna en mér, en mig langar samt að útskýra hvað gerðist og af hverju, því þetta er gegnumgangandi vandamál í íslenskum fjölmiðlum, gerist allt of oft.“
Fyrir þáttinn hafi Heimir Már Pétursson, fréttamaður, tilkynnt frambjóðendum allra flokka að tímanum yrði skipt jafnt þeirra á milli.
„Mér fannst hins vegar koma í ljós þegar leið á þáttinn að ætlunin var ekki að leyfa fólki að fá jafn mikinn tíma. Þá greip ég fram í fyrir öðrum frambjóðendum. Ég man ekki hverjum en minnir að það hafi verið einhver af formönnum stjórnarflokkanna.
Tilfinningin fyrir þessu ójafnvægi í tíma fannst mér vera vegna þess að þáttastjórnandi spurði formenn stjórnarflokkanna fleiri spurninga. Það var ósagt, en greinilega ætlunin, að aðrir ættu að grípa fram í. Og þegar líða tók á þáttinn bar óþolinmæðin mig ofurliði. Ósanngirnin í því að loforð um jafnt tækifæri til þess að komast að væri brotið var einfaldlega yfirgnæfandi.“
Björn segir að nú þegar hann horfi til baka hefði hann líklega átt að spyrja þáttastjórnanda beint hvort að ætlast væri til þess að hann gripi fram í. Björn hafi þó upplifað að umræðustjórn hafi verið betri í Fjölbrautaskólanum við Ármúla heldur en hjá Stöð 2, en Björn mætti í umræður á báða staði í aðdraganda kosninga.
Hann telur ennfremur að þingmenn meirihlutans fái almennt meira rými hjá fjölmiðlum en þeir í minnihluta. Dæmi um þetta sé fréttaannáll RÚV nú um áramót.
„Jafnræði skiptir miklu máli í stjórnmálum og það er sorglegt að sjá þau sem eiga að gæta þess best mistakast og þetta er ekkert einsdæmi, t.d. í fréttaannál RÚV komu sjö stjórnarþingmenn í lok þáttar til þess að segja hversu æðislegt næsta ár yrði en enginn úr minnihluta. Í sama fréttaannál voru kosningaauglýsingar flestra flokka sýndar, ekki allra, og því verður að spyrja hvað ræður því að sumir eru skildir eftir út undan? Jafnt aðgengi er nefnilega ekki bara mikilvægt, það er hornsteinn lýðræðislegs samfélags.
Allir gera mistök, ég gerði mistök þarna og viðurkenni að ósanngirni er fljót að eyða þolinmæðinni hjá mér og biðst afsökunar á því. Næst eiga að vera sýnilegar skeiðklukkur.“