Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup styðja 62% þjóðarinnar núverandi ríkisstjórn. Fylgi VG dalar hins vegar um tvö prósentustig frá þingkosningunum í haust.
Könnunin var gerð í desember og er Sjálfstæðisflokkurinn efstur með 23,3% fylgi, sem er rúmu prósenti minna en fylgið sem flokkurinn fékk í kosningunum.
Fylgi Framsóknar stendur nánast í stað og eykst þó lítillega, úr 17,3% upp í 17,7%.
VG lækkar úr 12,6% niður í 10,6%.
Stjórnarandstöðuflokkunum gengur misjafnlega. Píratar bæta hressilega við sig frá kosningafylginu, fara úr 8,6% upp í 12,5%.
Samfylkingin bætir dálítið við sig, fer úr 9,9% upp í 10,6%.
Viðreisn er rétt fyrir ofan kosningafylgið, eða í 8,6%.
Flokkur fólksins, sem vann sigur í kosnignunum, er rétt fyrir neðan kjörfylgið, eða í 8,6%.
Sósíalistaflokkurinn fengi 4,5% og næði ekki fólki á þing.
Miðflokkurinn myndi falla af þingi miðað við þessar niðurstöður, er í 3,4% en fékk 5,5% í kosningunum.