Joanna Marcinkowska, verkefnisstjóri ráðgjafarstofu innflytjenda, sakaði ritstjóra Viljans, Björn Inga Hrafnsson, um útlendingahatur í Kastljósi í kvöld. Hún kom til að ræða stöðu bólusetninga hjá innflytjendum og Íslendingum af erlendum uppruna á Íslandi og sagði skrif hans um málið innihalda rangfærslur.
Aðdragandinn er pistill Björns Inga sem birtist á Viljanum í gær. Þar sagði hann „bleika fílinn í stofunni“ vera: „útlendinga sem vinna hér og hafa íslenska kennitölu, en gera annars lítt eða ekkert með sóttvarnaráðstafanir okkar samfélags; neita að fá bólusetningar og leggja því meira á heilbrigðiskerfið okkar og eigin heilsu en ástæða væri til.“
Pistill Björns Inga vakti athygli og skrifað var um hann í fjölmiðlum og hægt er að spyrja sig hvort hann hafi jafnvel orðið til þess að Joanna var fengin í Kastljósið. Þegar hún var spurð um þessi tilteknu skrif Björns sagði hún:
„Ég vil þakka fyrir að þessi umræða sé tekin strax og að þessar rangfærslur fái ekki að grassera í samfélaginu. Ég myndi jafnvel bara kalla þetta útlendingahatur. Fyrst og fremst þegar talað er um útlendinga með íslenskar kennitölur. Það eru ekki útlendingar heldur innflytjendur sem hafa rétt á allri þjónustu eins og Íslendingar.“
Í kjölfarið sagðist hún hafa heyrt sögur um fordóma sem fólk hefur orðið fyrir vegna COVID-19 og sagði slíkt skaða samfélagið í heild sinni.