Fréttablaðið skýrir frá þessu. Um áramótin var búið að selja um 11.000 rafmagnsbíla með þessari ívilnun og reiknar Runólfur Ólafsson, formaður FÍB, með að 15.000 bíla kvótinn klárist um mitt ár. Hann kallar eftir fyrirsjáanleika frá stjórnvöldum.
100% hreinir rafbílar fá ívilnun í formi lægri virðisaukaskatts og getur upphæðin numið allt að 1,5 milljónum króna. Þegar kvótinn verður uppurinn hækkar verðið á þessum bílum og þá um allt að 1,5 milljónir.
Þar sem framleiðsla rafmagnsbíla gengur hægt þessa mánuðina vegna heimsfaraldursins gæti sú staða komið upp á íslenskir kaupendur panti sér bíl í sumar en vegna seinkunar verði kvótinn orðinn fullur og þegar upp verður staðið verði bíllinn 1,5 milljónum dýrari en upphaflega.
Haft er eftir Runólfi að neytendur þurfi meiri fyrirsjáanleika og honum líst ekki vel á að einhverskonar höfrungahlaup hefjist á markaðnum til að fylla kvótann.
Samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu voru rafbílar 27,8% seldra bíla á síðasta ári. Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagnsbíla árið 2020 nam 2,9 milljörðum.