Fyrir fjórum árum komu út endurminningar Guðmundar H. Garðarsson, fyrrv. alþingismanns og formanns VR, sem undirritaður skráði. Guðmundur lýsir þar meðal annars deginum sem hann tók fyrst sæti á Alþingi en það var 23. nóvember 1967 í forföllum Jóhanns Hafstein, dóms- og kirkjumálaráðherra. Grípum niður í frásögn Guðmundar: „Ingólfur Jónsson á Hellu lagði mér lífsreglur stjórnmálamannsins þennan dag þegar hann sagði: „Guðmundur, ekki fara upp í pontu bara til að tala og tala. Ekki fara upp í pontu nema hafa vit á því sem þú ert að tala um.““
Mér varð hugsað til þessara orða í nýliðnum desembermánuði þegar hálfur þingheimur hafði verið hnepptur í einangrun eða sóttkví og varamennirnir streymdu í þingsalinn. Flestir rembdust við að mæla eitthvað spaklegt úr ræðustóli og verða ef til vill frægir í fimmtán sekúndur. En ræðurnar voru síður en svo allar innihaldslausar. Á þingfundi 22. desember stigu tveir þjóðkunnir varaþingmenn í ræðustól Alþingis í fyrsta sinn en fjárlagafrumvarpið var til umræðu þann daginn. Ræður þeirra beggja lýstu meira innsæi og meiri dýpt en við eigum alla jafna að venjast í þingsalnum.
Fyrri ræðuna flutti Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar, en hann hvatti þingheim til að staldra við í miðri fjárlagaumræðunni — því sýna þyrfti skattgreiðendum meiri virðingu. Fyrir það fyrsta væri rekstur ríkisins orðinn fram úr hófi flókinn og kostnaðarsamur. Til merkis um það væri frumvarp til fjárlaga upp á fimm hundruð blaðsíður og þar væri lýst tvö þúsund milljarða fjárstreymi:
„Tæpir þúsund milljarðar inn í kassann og rúmir þúsund milljarðar út. Mismunurinn er einfaldlega tekinn að láni með því að ýta á grænan takka. Þetta eru fimm og hálfur milljarður sem fer inn og út í dag — bara í dag.“
Hægræðing og einföldun ríkisrekstrar væri varla til umræðu, ekkert minnst á fækkun ríkisstofnana og útvistun verkefna ríkisins til einkaaðila ekki á dagskrá. Thomas minnti líka á að Íslendingar væru næstskattpíndasta þjóðin innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar og velti því upp hvort við værum komin að þolmörkum í skattheimtu. Nauðsynlega yrði að grípa til aðhaldsaðgerða og sparnaðar í ríkisrekstrinum og það þyldi enga bið. Thomas, sem starfað hefur í atvinnulífinu í fjörutíu ár, benti á að væri ríkisreksturinn „fyrirtækið Ísland ehf. væri stöðugt verið að leita leiða til hagræðingar í rekstri, sameiningar rekstrareininga, minnkunar yfirbyggingar og útvistunar verkefna. Ekkert slíkt er að finna í fjárlögum fyrir árið 2022.“
Þá fengi fjöldi ríkisfyrirtækja áfram að starfa óáreittur í samkeppni við einkareksturinn — oft með peningum úr ríkissjóði. Ríkisstjórnin væri komin langt frá skynsamlegum og ábyrgum ríkisrekstri og sýndi skelfilegt fordæmi með því að bæta við tveimur ráðuneytum. Þessi fjölgun ráðuneyta hefði engan tilgang annan en að fjölga ráðherrum svo valdahlutföllin milli stjórnarflokkanna héldust: „Hvílík sóun á skattpeningum almennings og virðingarleysi gagnvart skattgreiðendum,“ sagði Thomas um þessar ráðstafanir. Hann benti á Íslendingar yrðu að sníða sér stakk eftir vexti og nefndi sem dæmi að hægt væri að komast af með 50 ríkisstofnanir í stað 200, sex sendirráð í stað 26 og sex ráðuneyti í stað tólf.
Í ræðu Thomasar kvað við hressilegan tón sem því miður er orðinn fáheyrður í þingsölum og raunar í þjóðfélagsumræðunni almennt. Hina jómfrúarræðuna sem vakti athygli mína þennan sama dag flutti Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi. Hann hóf tölu sína á að taka undir með sjónarmiðum Thomasar en horfði til annarra þátta og dró fram þær hættur sem væru samfara faraldrinum sem nú hefur geysað í bráðum tvö ár. Verulega skorti á temprun ríkisvalds og ríkisumsvifa þessi misserin og vikið væri frá viðmiðunum um það hvað teldist viðunandi hallarekstur.
Arnar Þór spurði líka að því í ræðu sinni hvort réttlætanlegt væri að raska jafnvægi milli valdþáttanna þriggja, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Dómari hefði nýlega sagt í rökstuðningi — þar sem deilt var um réttmæti sóttvarnaraðgerða — að rétt væri að játa handhöfum framkvæmdarvalds rúmt sigrúm til aðgerða við ríkjandi aðstæður. Arnar Þór sagði þennan rökstuðning dómarans hafa leitt til sig til umhugsunar um hvort að grundvallarreglur um temprun ríkisvalds væru beinlínis í hættu því það væri hlutverk dómsvaldsins að veita handhöfum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds aðhald. Menn yrðu að spyrja sig hvort rétt væri að stjórna landinu með fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa án lýðræðislegrar temprunar Alþingis því þingbundin stjórn væri besta vörn almennings gegn hvers kyns ofríki stjórnvalda.
Arnar Þór benti einnig á það í ræðu sinni að í fræðiskrifum í stjórnskipunarrétti væri ekki viðurkennt að hægt væri að tala um neyðarástand ef valdhafar sjálfir hefðu stjórn á þeim aðstæðum sem yllu neyðinni en nú um stundir virtist „neyðin“ liggja í rekstrarvanda Landspítala. Slík „heimatilbúin innviðakrísa“ mætti ekki verða grundvöllur þess að hneppa fólk í fjötra. Þá yrði að koma í veg fyrir að sérfræðingar tækju um valdatauma í auknum mæli í krafti kennivalds. Ef gengið yrði of langt í þessu efni yrði ekki lengur hægt að tala um þingbundna stjórn.
Í þessum tveimur ræðum komu fram grundvallaratriði um nauðsyn þess að takmarka ríkisvald og ríkisumsvif og þá hættu sem er samfara hvers kyns ofríki. Báðir þessir heiðursmenn eiga það sameiginlegt að hafa að mestu staðið utan stjórnmálanna og öðlast mikla reynslu af öðrum sviðum þjóðlífsins.
Hlutverk stjórmálamanna er að vinna að framgangi hugsjóna sinna og þá vonandi bæta samfélagið. Nú er staðan aftur á móti orðin sú að flestir stjórnmálamenn eru orðnir samdauna „kerfinu“. Þá eru flokkarnir að mestu orðnir óháðir framlagi hins almenna flokksmanns og þess stað reknir á kostnað ríkissjóðs og líkjast meira ríkisstofnunum en frjálsum félagasamtökum.
Í ræðum þeirra Thomasar og Arnars Þórs kvað aftur á móti við hressilegan tón sem vekur von um aukið aðhald gegn útþennslu ríkisbáknsins. Það eru jákvæð teikn nú í byrjun nýs árs.