Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, er andvíg því að regnboganum – sem áður hafði verið lofað varanlegu plássi á Skólavörðustíg – verði fjarlægður.
Nú stendur til að fjarlægja regnbogann sem árið 2019 var samþykkt að yrði varanlega málaður á Skólavörðustíg og finna honum annan stað í borginni, en regnboginn er tákn stuðnings borgarinnar við hinsegin samfélagið.
Hildur segir að nú hafi regnboganum verið úthýst frá Skólavörðustíg.
„Sumarið 2019 samþykkti borgarstjórn málun varanlegs regnboga við Skólavörðustíg. Málið var afgreitt í þverpólitískri sátt og þótti til marks um eindreginn stuðning borgarinnar við baráttu hinsegin fólks. Nú, aðeins tveimur árum síðar, er fyrirhugað að fjarlægja regnbogann. Ráðist hefur verið í endurhönnun götunnar, þar sem hinum varanlega, fallega og táknræna regnboga finnst hvergi staður,“ skrifar Hildur á Facebook.
Bendir Hildur á að hinsegin samfélagið á Íslandi hafi lýst yfir vonbrigðum með þessa breytingu.
„Hinsegin samfélagið hefur lýst sárum vonbrigðum með breytinguna. Hún sé ekki í takti við þann eindregna stuðning sem borgin sýndi baráttu hinsegin fólks fyrir aðeins tveimur árum.“
Þó svo endurhönnun Skólavörðustígs sé falleg, þá telur Hildur að hægt væri að ráðast í jafn fallegar breytingar án þess að úthýsa regnboganum.
„Tillögur að endurhönnun Skólavörðustígs eru sannarlega fallegar – en það hefði vel mátt endurhanna göturýmið með tilliti til regnbogans – í samtali við hinsegin samfélagið.“
Hildur segir að regnboginn hafi í dag fest sig í sessi sem kennileiti í borginni, sem ferðamannastaður og fyrst og fremst sem stuðningsyfirlýsing við baráttu hinsegin fólks.
„Regnboginn við Skólavörðustíg hefur þegar fest sig í sessi sem mikilvægt kennileiti í Reykjavík. Hann er skýr stuðningsyfirlýsing við baráttu hinsegin fólks en jafnframt borgarprýði og vinsæll viðkomustaður ferðamanna – sterk skilaboð um að Reykjavík sé borg mannréttinda og frelsis – og um það verði ekki gerðar neinar málamiðlanir.“
Hildur vill áfram að stuðningur borgarinnar við hinseginn samfélagið sé skýr – hún vill því regnbogann áfram á Skólavörðustíg.
„Ég vil þessi skilaboð skýr í Reykjavík. Ég vil regnbogann áfram við Skólavörðustíg“