Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Þetta er fínasta samtal og það kemur svo sem ekkert á óvart í þessum hópi með það. Það breytir því ekki að kosningar marka nýtt upphaf. Þetta er nýtt verkefni og við þurfum aðeins að gefa okkur tíma í það,“ er haft eftir Katrínu.
Segir blaðið að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins telji að flokki hans beri að fá aukið vægi í áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi í samræmi við fylgisaukningu flokksins. Hefur fjármálaráðuneytið verið nefnt sérstaklega í því samhengi.
Morgunblaðið hefur eftir þingmanni Sjálfstæðisflokksins að það sé ekki trúaratriði fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera með fjármálaráðuneytið en ef tveir minni flokkarnir samstarfinu vilji fá valdamestu embættin þá hljóti Sjálfstæðisflokkurinn að fá að minnsta kosti helming annarra ráðuneyta.
Skipting ráðuneyta hefur lítið verið rædd enn sem komið er að sögn Morgunblaðsins.