Á morgun fara fram 23. kosningar til Alþingis frá lýðveldisstofnun. Tíu flokkar eru í framboði og allar líkur eru á að núverandi ríkisstjórn falli. Eins og venja er fyrir og þekkt er munu vafalaust fjölmargir taka stefnu á gott kosningapartí á morgun. Þar koma saman tvenns konar fólk. Fólk með alvöru áhuga á stjórnmálum, sem mæta með niðurnagaðar neglur af spennu yfir úrslitunum, og svo fólk, sem vill bara hafa gaman.
Í þjónustu við þá sem einmitt vilja bara hafa gaman, en vilja þó vera með á nótunum þegar Bogi Ágústsson færir okkur nýjustu fréttir úr hinu og þessu kjördæminu, hefur DV tekið saman örfá atriði sem gott er að hafa á hreinu til að skilja hvað er í gangi annað kvöld.
Íslandi er skipt i sex kjördæmi og samtals eru 63 þingmenn. Í hverju kjördæmi eru visst margir þingmenn sem úthlutað er eftir fjölda atkvæða samkvæmt tveimur kerfum. Annars vegar eru kjördæmakjörnir þingmenn. Þeir þingmenn ná inn eftir atkvæðamagni í sínu kjördæmi. Hins vegar hefur hvert kjördæmi á bilinu einn og upp í tvo landskjörna þingmenn sem kallaðir eru uppbótarþingmenn, eða jöfnunarsæti. Þessum sætum er úthlutað eftir fylgi flokks á landsvísu.
Ef þú veist ekki hvar þú átt að kjósa, eða í hvaða kjördæmi þú ert, getur þú skoðað það hér.
Kjördæmin eru sem hér segir, og þingmannafjöldi í hverju kjördæmi fyrir sig:
Reykjavíkurkjördæmi norður, 11 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Reykjavíkurkjördæmi suður, 11 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Suðvesturkjördæmi, 13 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Suðurkjördæmi, 10 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)
Norðausturkjördæmi, 10 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)
Norðvesturkjördæmi, 8 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)
Til þess að eiga möguleika á því að fá jöfnunarsætum úthlutað þarf flokkur að ná 5% fylgi. Þetta er kallað 5% þröskuldurinn. Þó það sé möguleiki á því að ná inn kjördæmakjörnum manni án þess að ná 5% á landsvísu, er slíkt afar ólíklegt. Þannig má gera ráð fyrir því að flokkur sem nær ekki 5% fái engan mann kjörinn.
Undanfarið hefur mikið verið talað um það að ríkisstjórnin muni falla í næstu kosningum.
Alþingi hefur vald til þess að koma ríkisstjórn frá með meirihluta atkvæða. Því þarf ríkisstjórn að geta varist slíkri atlögu með því að hafa alltaf meirihluta á þingi. Þess vegna er talað um meirihluta og minnihluta. Þó að minnihlutastjórnir séu til (þá lofar einn eða fleiri flokkur að verja minnihlutastjórn falli með atkvæðum sínum á þingi) eru slíkar stjórnir sjaldgæfar á Íslandi.
Þingmenn eru 63. Til þess að hafa gulltryggðan meirihluta á þingi þarf ríkisstjórn því að vera samsett úr flokkum sem hafa samtals 32 þingmenn. Þegar fyrstu tölur koma út, þá er því gott að hafa reiknivélina upp og finna snögglega út hvaða flokkar ná saman upp í 32. Þær samsetningar eru þannig mögulegar ríkisstjórnir.
Það er þó ekki nóg að hafa 32 þingmenn. Flokkarnir þurfa líka að geta unnið saman. Persónuleg óvild formanna tveggja flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur eru dæmi um ástæður fyrir því að flokkar geti ekki unnið saman. Þannig er til dæmis mun minni líkur á því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking muni vinna saman að nýrri ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem eru nú saman í stjórn.
Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði eru tíu talsins auk eins sem náði bara að búa til gilt framboð í einu kjördæmi.
Þessir tíu flokkar eru:
Sjálfstæðisflokkur
Framsókn
Samfylking
Vinstri grænir
Píratar
Viðreisn
Flokkur fólksins
Miðflokkur
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Sósíalistaflokkur
Ef fer sem horfir gætu flokkar á þingi orðið níu, sem er Íslandsmet. Fyrra met var sett í síðustu kosningum þegar átta flokkar náðu kjöri. Allir nema Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn eru að mælast í skoðanakönnunum með menn inni á þingi.
Níu stjórnmálaflokkar þýðir að fleiri flokka þarf til þess að ná saman í meirihluta á þingi og þannig mynda ríkisstjórn. Sumir óttast að fleiri flokkar þýði meiri óreiða og að erfiðara verður að halda þannig ríkisstjórn saman í gegnum heilt kjörtímabil. Stöðugustu ríkisstjórnir Íslandssögunnar hafa verið stjórnir tveggja flokka. Þó hefur það einnig verið sýnt og sannað undanfarin ár, að margt getur breyst í íslenskri pólitík, og það fremur hratt.
Þrír af þessum flokkum hafa verið að dansa rétt yfir hinn svokallaða 5% þröskuld í skoðanakönnunum síðustu vikur. Það eru Miðflokkur, Sósíalistaflokkur og Flokkur fólksins.
Fyrstu tölur eru fyrstu niðurstöður sem birtar eru opinberlega. Þá fást upplýsingar um kjörsókn, hvað er búið að telja mörg atkvæði af heildarfjölda atkvæða og hvernig þau atkvæði dreifast.
Þegar fyrstu tölur liggja fyrir í öllum kjördæmum verður strax komin nokkur skýr mynd á hvernig heildaratkvæðafjöldi leggst yfir kvöldið. Þó geta hlutir alltaf breyst, en stórar og miklar sveiflur frá fyrstu tölum að lokatölum eru sjaldséðar.
Ef þú ert ekkert mikið inn í hlutunum en vilt samt „lúkka pró“ annað kvöld er ágætt að hafa eftirfarandi í huga:
Í Reykjavíkurkjördæmunum verður fyrst og fremst að fylgjast með eftirfarandi:
Í Suðvesturkjördæmi má fylgjast með eftirfarandi: