fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Eyjan

Kosningavökusvindlmiði DV – Sjáðu allt sem þú þarft að vita til að halda uppi stemningu í kosningapartí í kvöld

Heimir Hannesson
Föstudaginn 24. september 2021 21:00

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á morgun fara fram 23. kosningar til Alþingis frá lýðveldisstofnun. Tíu flokkar eru í framboði og allar líkur eru á að núverandi ríkisstjórn falli. Eins og venja er fyrir og þekkt er munu vafalaust fjölmargir taka stefnu á gott kosningapartí á morgun. Þar koma saman tvenns konar fólk. Fólk með alvöru áhuga á stjórnmálum, sem mæta með niðurnagaðar neglur af spennu yfir úrslitunum, og svo fólk, sem vill bara hafa gaman.

Í þjónustu við þá sem einmitt vilja bara hafa gaman, en vilja þó vera með á nótunum þegar Bogi Ágústsson færir okkur nýjustu fréttir úr hinu og þessu kjördæminu, hefur DV tekið saman örfá atriði sem gott er að hafa á hreinu til að skilja hvað er í gangi annað kvöld.

Kjördæmin og kjörnir þingmenn

Íslandi er skipt i sex kjördæmi og samtals eru 63 þingmenn. Í hverju kjördæmi eru visst margir þingmenn sem úthlutað er eftir fjölda atkvæða samkvæmt tveimur kerfum. Annars vegar eru kjördæmakjörnir þingmenn. Þeir þingmenn ná inn eftir atkvæðamagni í sínu kjördæmi. Hins vegar hefur hvert kjördæmi á bilinu einn og upp í tvo landskjörna þingmenn sem kallaðir eru uppbótarþingmenn, eða jöfnunarsæti. Þessum sætum er úthlutað eftir fylgi flokks á landsvísu.

Ef þú veist ekki hvar þú átt að kjósa, eða í hvaða kjördæmi þú ert, getur þú skoðað það hér.

Kjördæmin eru sem hér segir, og þingmannafjöldi í hverju kjördæmi fyrir sig:

Reykjavíkurkjördæmi norður, 11 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Reykjavíkurkjördæmi suður, 11 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Suðvesturkjördæmi, 13 þingmenn (þar af 2 jöfnunarsæti)
Suðurkjördæmi, 10 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)
Norðausturkjördæmi, 10 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)
Norðvesturkjördæmi, 8 þingmenn (þar af 1 jöfnunarsæti)

Til þess að eiga möguleika á því að fá jöfnunarsætum úthlutað þarf flokkur að ná 5% fylgi. Þetta er kallað 5% þröskuldurinn. Þó það sé möguleiki á því að ná inn kjördæmakjörnum manni án þess að ná 5% á landsvísu, er slíkt afar ólíklegt. Þannig má gera ráð fyrir því að flokkur sem nær ekki 5% fái engan mann kjörinn.

Ríkisstjórnin gæti fallið – Hvað þarf til að mynda nýja?

Undanfarið hefur mikið verið talað um það að ríkisstjórnin muni falla í næstu kosningum.

Alþingi hefur vald til þess að koma ríkisstjórn frá með meirihluta atkvæða. Því þarf ríkisstjórn að geta varist slíkri atlögu með því að hafa alltaf meirihluta á þingi. Þess vegna er talað um meirihluta og minnihluta. Þó að minnihlutastjórnir séu til (þá lofar einn eða fleiri flokkur að verja minnihlutastjórn falli með atkvæðum sínum á þingi) eru slíkar stjórnir sjaldgæfar á Íslandi.

Þingmenn eru 63. Til þess að hafa gulltryggðan meirihluta á þingi þarf ríkisstjórn því að vera samsett úr flokkum sem hafa samtals 32 þingmenn. Þegar fyrstu tölur koma út, þá er því gott að hafa reiknivélina upp og finna snögglega út hvaða flokkar ná saman upp í 32. Þær samsetningar eru þannig mögulegar ríkisstjórnir.

Það er þó ekki nóg að hafa 32 þingmenn. Flokkarnir þurfa líka að geta unnið saman. Persónuleg óvild formanna tveggja flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur eru dæmi um ástæður fyrir því að flokkar geti ekki unnið saman. Þannig er til dæmis mun minni líkur á því að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking muni vinna saman að nýrri ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sem eru nú saman í stjórn.

Flokkar í framboði

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði eru tíu talsins auk eins sem náði bara að búa til gilt framboð í einu kjördæmi.

Þessir tíu flokkar eru:

Sjálfstæðisflokkur
Framsókn
Samfylking
Vinstri grænir
Píratar
Viðreisn
Flokkur fólksins
Miðflokkur
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
Sósíalistaflokkur

Ef fer sem horfir gætu flokkar á þingi orðið níu, sem er Íslandsmet. Fyrra met var sett í síðustu kosningum þegar átta flokkar náðu kjöri. Allir nema Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn eru að mælast í skoðanakönnunum með menn inni á þingi.

Níu stjórnmálaflokkar þýðir að fleiri flokka þarf til þess að ná saman í meirihluta á þingi og þannig mynda ríkisstjórn. Sumir óttast að fleiri flokkar þýði meiri óreiða og að erfiðara verður að halda þannig ríkisstjórn saman í gegnum heilt kjörtímabil. Stöðugustu ríkisstjórnir Íslandssögunnar hafa verið stjórnir tveggja flokka. Þó hefur það einnig verið sýnt og sannað undanfarin ár, að margt getur breyst í íslenskri pólitík, og það fremur hratt.

Þrír af þessum flokkum hafa verið að dansa rétt yfir hinn svokallaða 5% þröskuld í skoðanakönnunum síðustu vikur. Það eru Miðflokkur, Sósíalistaflokkur og Flokkur fólksins.

Fyrstu tölur hvað?

Fyrstu tölur eru fyrstu niðurstöður sem birtar eru opinberlega. Þá fást upplýsingar um kjörsókn, hvað er búið að telja mörg atkvæði af heildarfjölda atkvæða og hvernig þau atkvæði dreifast.

Þegar fyrstu tölur liggja fyrir í öllum kjördæmum verður strax komin nokkur skýr mynd á hvernig heildaratkvæðafjöldi leggst yfir kvöldið. Þó geta hlutir alltaf breyst, en stórar og miklar sveiflur frá fyrstu tölum að lokatölum eru sjaldséðar.

Ef þú ert ekkert mikið inn í hlutunum en vilt samt „lúkka pró“ annað kvöld er ágætt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Miklar sveiflur frá síðustu kosningum í fylgi flokka eru alltaf eftirtektarverðar. Fylgisfall, eða aukning, eins flokks innan sama kjördæmi um meira en 5% er stórfrétt.
  • Eru litlu flokkarnir að ná yfir 5%, Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins?

Í Reykjavíkurkjördæmunum verður fyrst og fremst að fylgjast með eftirfarandi:

  • Í Reykjavík náði Sjálfstæðisflokkurinn fimm mönnum kjörnum inn síðast. Tveimur í suður og þremur í norður. Nú er Brynjar Níelsson, sem hefur verið áberandi á þingi síðustu misseri, í 3. sæti flokksins í Reykjavík norður og því fróðlegt að fylgjast með því hvort Sjálfstæðismönnum takist að halda þremur mönnum og Brynjari þannig inni. Brynjar er manneskja sem fólk ýmist elskar eða hatar, og því verður um það rætt hvort hann sé inni eða úti annað kvöld.
  • Sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík suður. Þar er Birgir Ármannsson í þriðja sæti. Hann er sitjandi þingmaður sem nú er í baráttusæti. Það er alltaf stórfrétt ef sitjandi þingmaður til margra ára dettur út af þingi í kosningum. Því miður fyrir Birgi eru allar líkur á því á morgun.
  • Ásmundur Einar lék þann leik fyrir þessar kosningar að segja sig frá öruggasta þingsæti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, þar sem Framsókn fær yfirleitt mjög hátt hlutfall atkvæða, yfir í Reykjavík norður, þar sem Framsókn er töluvert veikari. Framsókn náði til dæmis ekki inn manni þar í síðustu kosningum. Ásmundur hefur hins vegar mælst mjög vinsæll ráðherra á kjörtímabilinu og því fróðlegt hvort að þetta „plott“ hans hafi borið árangur eða ekki. Það er að minnsta kosti alltaf högg fyrir flokk að missa vinsælan ráðherra út af þingi í kosningum.
  • Varaformaður Viðreisnar, Daði Már Kristófersson, er í öðru sæti flokksins í Reykjavík suður og því ljóst að flokkurinn mun leggja kapp á að koma honum inn og ná tveimur sætum í stað einu þar.
  • Gunnar Smári Egilsson er í fyrsta sæti Sósíalista í Reykjavík norður. Alltaf fróðlegt að fylgjast með gengi formanna stjórnmálaflokka.

Í Suðvesturkjördæmi má fylgjast með eftirfarandi:

  • Sigmar Guðmundsson sannaði sig í baráttunni sem pólitískur haukur í horni Viðreisnar, en hann skipar annað sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi, eða Kraganum eins og kjördæmið er gjarnan kallað. Viðreisn er með einn mann í kjördæminu núna, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann flokksins. Takist flokknum að ná inn einum í viðbót er ljóst að þingflokkur flokksins mun styrkjast til muna.
  • Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi héraðsdómari, hefur farið mikinn í umræðunni undanfarið og látið mikið að sér kveða í fullveldismálum. Þá sérstaklega í tengslum við mál er varða Evrópusambandið og EES. Flokkurinn er með fjögur sæti í kjördæminu í dag og kappsmál fyrir flokkinn að ná inn þessum öfluga manni í fimmta sæti.

Norðaustur og Norðvestur

  • Sigmundur Davíð er formaður Miðflokksins og er í fyrsta sæti í Norðausturkjördæmi. Miðflokkurinn hefur hingað til sótt nokkuð mikið af sínu fylgi í hans heimakjördæmi. Hugsanlegt er að Sigmundur verði kjördæmakjörinn þingmaður í Norðausturkjördæmi en að flokkurinn fái undir 5% á landsvísu og missi þannig uppbótarþingmenn sína. Sigmundur yrði þá eins manns þingflokkur á þingi næstu fjögur ár.
  • Tekist var á um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í prófkjöri í sumar og hafði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir betur í slagnum. Haraldur Benediktsson tók annað sæti á listanum. Flokkurinn hefur hingað til átt tvö sæti í kjördæminu. Í þriðja sæti listans er Teitur Björn Einarsson, sem lengi hefur ætlað sér að komast inn á þing fyrir flokkinn. Allt kapp er lagt á að uppfylla þá ósk Teits í þessum kosningum.

Suðurkjördæmi

  • Í Suðurkjördæmi ráða Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ríkjum. Kjördæmið er frekar undarlegt að því leyti að það teygir sig alla leið frá Sandgerði og alveg að Höfn í Hornafirði á Suðausturlandi. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig þessir tveir risar koma út í fyrstu tölum.
  • Ein tala sem gæti riðlað þessu mikla fylgi stóru flokkanna tveggja er kosningaþátttaka á Suðurnesjum. Í síðustu kosningum hefur hún verið um 75%. Ef þátttaka þar næðist upp um 5-10% gætum við séð nægilega stóra sveiflu til þess að taka hugsanlega 1-2 þingmenn af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum og færa yfir til vinstri flokkanna. Í dag eiga þeir 5 af 9 kjördæmakjörnum þingmönnum í Suðurkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Lilja Rafney í Flokk fólksins

Lilja Rafney í Flokk fólksins
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hugsi yfir gagnrýni föður Dags á Kristrúnu – „Korter í kosningar gýs upp valdabarátta“

Hugsi yfir gagnrýni föður Dags á Kristrúnu – „Korter í kosningar gýs upp valdabarátta“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Mistök sósíalista og sjálfstæðismanna gætu skotið líflínu til Vinstri grænna

Orðið á götunni: Mistök sósíalista og sjálfstæðismanna gætu skotið líflínu til Vinstri grænna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Angela Árnadóttir skrifar: Fjárfestum í kennurum

Angela Árnadóttir skrifar: Fjárfestum í kennurum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jakob Frímann fylgir á eftir Sigríði á lista Miðflokksins og Þorsteinn snýr aftur

Jakob Frímann fylgir á eftir Sigríði á lista Miðflokksins og Þorsteinn snýr aftur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Takk fyrir peninginn, Inga Sæland

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Takk fyrir peninginn, Inga Sæland
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sanna Magdalena: Höfum ekki tekið á móti of mörgum – mannúðin verður að vera í fyrirrúmi

Sanna Magdalena: Höfum ekki tekið á móti of mörgum – mannúðin verður að vera í fyrirrúmi
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur tjáir sig um umdeilt bréf Kristrúnar – „Ég skal viðurkenna að mér brá svolítið þegar ég sá þetta”

Dagur tjáir sig um umdeilt bréf Kristrúnar – „Ég skal viðurkenna að mér brá svolítið þegar ég sá þetta”