fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Sjáðu greinina sem Gunnar Smári sagðist ekki muna eftir – Vildi einkavæða heilbrigðiskerfið í ljósi vel lukkaðrar bankaeinkavæðingar

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 21. september 2021 10:11

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, formaður og frambjóðandi Sósíalistaflokksins, var til tals á RUV í gærkvöldi þar sem farið var yfir víðan völl. Gunnar var spurður út í tíð hans sem hægri sinnaður ritstjóri Fréttablaðsins, þar sem hann meðal annars talaði fyrir stórauknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. „Hvað gerðist eiginlega, hvers vegna skiptirðu svona gjörsamlega um skoðun?“ spurði þáttastjórnandi Ríkisútvarpsins sósíalistann. „Það má vera að ég hafi haft þessa skoðun,“ svaraði Gunnar en benti á að það sjónarmið hafi verið gagnrýnissjónarmið sem hann hafi komið með að borðinu. „Sá tími sem ég gagnrýni Sjálfstæðisflokkinn frá hægri, var þegar Davíð Oddssonar var á sínum síðustu metrum.“

„En þú talaðir beinlínis um það að það þyrfti að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu,“ skaut þáttastjórnandi þá inn. „Ég bara man þetta ekki, síðan hvenær er þetta?“ sagði Gunnar.

Gunnar hélt þá áfram og sagðist ekki vita í hvaða samhengi greinin hafi verið skrifuð.

„Alveg eins og Stalín er ekki hérna eins og þú varst að spyrja áðan, þá er bara Gunnar Smári 2004 ekki í framboði. Ég hef skrifað heilu herbergin eftir Gunnar Smára 2004, sem stangast á, og ég hef leyft mér sem pistlahöfundur og blaðamaður að vera svolítið svona ólíkindatól og brugðið fyrir mér hæðni og alls konar hlutum,“ sagði Gunnar þá jafnframt.

Vildi einkavæða heilbrigðiskerfið

Í greininni sem þáttastjórnandi vísar til segist Gunnar Smári vilja einkavæða „sem flesta þætti“ heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Að þessari skoðun komst Gunnar Smári í ljósi gríðarlega vel heppnaðrar einkavæðingu bankanna. Um er að ræða leiðara Fréttablaðsins 20. janúar árið 2004, eftir Gunnar er hann var ritstjóri blaðsins. Á þeim tíma var bróðir Gunnars jafnframt ritstjóri blaðsins og Reynir Traustason, núverandi ritstjóri Mannlífs, ritstjórnarfulltrúi.

Gunnar Smári skrifaði:

Þótt enn sé ekki liðið heilt ár frá því að ríkisviðskiptabankarnir tveir voru einkavæddir er afrakstur þess að koma í ljós. Bankarnir eru reknir með miklum hagnaði og hafa aukið mjög við eign hluthafa sinna. Reynslan hefur sýnt að stjórnvöld hafa stórlega vanmetið jákvæð áhrif einkavæðingarinnar á bankana og því selt þá allt of ódýrt. Það er eins og ráðherrarnir hafi ekki trúað að rekstur ríkisins á bönkunum væri jafn hamlandi og getulítill og sagan hefur leitt í ljós.

Gunnar Smári sagði þá einkavæðingu bankanna hafa hleypt lífi í atvinnulífið. Bendir hann á heilbrigðiskerfið sem dæmi um hve hamlandi ríkisrekstur geti verið.

mynd/skjáskot timarit.is

Á sama tíma og einkavæðing bankanna hefur hleypt lífi í atvinnulífið bendir fátt til að sá rekstur sem enn er hjá ríkinu sé að skána. Heilbrigðiskerfið er þar líklega besta dæmið. Þar er allt í hnút.  Kostnaðurinn vex látlaust en samt þarf sífellt að skera niður þjónustu. Allir sem koma að þessum vanda eru samstiga um að vera jafn ráðalausir – svo sammála að mann grunar að starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins og spítalanna, ráðherrarnir og stjórnendur spítalanna hafi haft samráð um að leggja aldrei til neinar vitlegar lausnir.

„Trúarsetning“ að vera á móti einkarekstri

Gunnar Smári segir það þá vera trúarsetningu í íslensku samfélagi að ekki megi ræða einkavæðingu heilbrigðisstofnana. „En hversu mikið erum við tilbúin að borga fyrir hversu litla þjónustu til að halda í þessa trúarsetningu? Er hún okkur svo heilög að við viljum láta sífellt stærri hluta launa okkar ganga til þessa kerfis sem augljóslega virkar ekki, og búa við það mánuðum, árum og áratugum saman að sjúklingar séu reknir heim í einhverjum sparnaðaraðgerðum sem virðist ekki einu sinni ætlað að ganga upp?“

Ef það eitt að einkavæða bankana gat leyst slíka orku úr læðingi sem við höfum séð á undanförnum mánuðum, hversu mikil afrek gætum við ekki unnið í heilbrigðiskerfinu ef við frelsuðum það undan stefnulausum og orkusóandi ríkisrekstri? Og ef það er okkur trúarsetning að ríkið fari best með viðkvæman rekstur, hvers vegna hvarflar það ekki að okkur að flytja nokkuð til ríkisins sem einu sinni hefur sloppið þaðan? Það myndi flýta lausn á vanda heilbrigðisþjónustunnar ef við lærðum af reynslunni af öðrum rekstri, einkavæddum sem flesta þætti hennar til að fá betri þjónustu fyrir lægra verð.

Síðan Gunnar Smári birti þetta eru auðvitað liðin 18 ár og á þeim tíma hefur orðið eitt bankahrun, fjórar Alþingiskosningar, nýr forseti er tekinn við og Ísland komst á EM og HM, og Gunnar Smári skipt um skoðun. „Ég hef svo sannarlega skipt um skoðun,“ segir Gunnar meira að segja inni á Facebook síðu Sósíalistaflokks Íslands í gærkvöldi. Þar endurtók hann að hann hafi ekki munað eftir fréttinni frá því fyrir 18 árum, en hann hafi nú fundið hana og að hann geti „samviskusamlega fullyrt“ að hann hafi skipt um skoðun.

Pistillinn inn á Facebook endar Gunnar Smári svo á hvatningarorðum: „Kjósið Gunnar Smára 2021 sem veit betur en Gunnar Smári 2004. Og ekki kjósa neinn flokk sem heldur fram þeim barnaskap sem Gunnar Smári 2004 bauð upp á.“

Fyrsta lína í stefnuskrá Sósíalistaflokks Gunnar Smára í heilbrigðismálum er nú: „Að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna.“ Önnur línan er: „Að unnið verði gegn allri markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu og jafnvægi komið á þjónustuna miðað við þarfagreiningu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?