Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að útflutningstekjur fyrirtækja í hugverkaiðnaði hafi numið 160 milljörðum á síðasta ári og sé það tvöfalt meira en 2013. Á milli áranna 2019 og 2020 fjölgaði þeim fyrirtækjum sem fengu endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarverkefna úr rúmlega 200 í rúmlega 300.
Haft er eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, að ef rétt sé haldið á spöðunum geti hugverkaiðnaðurinn orðið ein stærsta útflutningsgrein hagkerfisins. „Þetta sýnir svart á hvítu að jarðvegurinn er frjór. Það er mikil gróska í gangi. Það eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem eru að taka verulega vaxtarkippi, eins og Controlant, Nox Medical og Kerecis. Hugverkaiðnaðurinn hefur alla burði til að vera langöflugasta útflutningsgreinin á Íslandi ef rétt er á málum haldið. Hann getur orðið mikilvægari en ferðaiðnaðurinn og orkuiðnaðurinn og aðrar greinar,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að á árum áður hafi verið talið að á hverjum áratug myndi eitt fyrirtæki verða verulega stórt, álíka og Össur, Marel og CCP eru, en nú sé slíkum fyrirtækjum að fjölga. Sagði Sigurður að þetta geti dregið úr sveiflum í hagkerfinu. „Við verðum ekki eins háð því að hingað komi ferðamenn eða að við getum veitt nógu mikinn fisk úr sjónum og svo framvegis. Þetta sáum við svart á hvítu á síðasta ári þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir verulegum samdrætti út af Covid. Á sama tíma voru fyrirtæki í hugverkaiðnaði að ráða til sín fólk og velta þeirra jókst. Þau nýttu tækifærið og sóttu fram,” sagði hann.