Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að neyðarflug erlendra ríkisstjórna til og frá Afganistan hafi lagst af og reglulegt millilandaflug sé ekki enn hafið frá alþjóðaflugvellinum í Kabúl.
Ríkisstjórnin ákvað að tekið yrði við allt að 120 afgönskum flóttamönnum vegna ástandsins sem skapaðist í kjölfar valdatöku Talibana. „Eftir að erlendur liðsafli fór frá Afganistan hafa möguleikar til að aðstoða fólk við að komast úr landi dvínað mjög. Þeir eru varla til staðar lengur,“ er haft eftir Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.
Hann sagði að borgaraþjónusta ráðuneytisins hafi verið í sambandi við 30 manns sem höfðu dvalið hér á landi eða stundað nám við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi og séu 10 manns úr þessum hópum komnir til landsins. „Miðað við þær viðmiðunartölur sem lagt var upp með, rúmlega hundrað manns og allt að hundrað og tuttugu, þá er óvíst hvað verður með hina,“ sagði Sveinn.