Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar bætir Viðreisn verulegu fylgi við sig á milli vikna og það gerir Framsókn einnig. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar töluvert sem og fylgi Sósíalistaflokksins. Fylgi annarra flokka breytist sáralítið á milli vikna.
Það var MMR sem gerði könnunina í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is. Fylgisaukning Viðreisnar er að mestu tilkomin vegna aukins stuðnings í tveimur kjördæmum. Þetta eru Suðurvesturkjördæmi þar sem flokkurinn nýtur nú 15,9% stuðnings. Í Reykjavík norður nýtur hann 19,3% stuðnings.
Í einstökum kjördæmum liggja ekki mörg svör að baki niðurstöðunum og því eru vikmörkin há.
Í Reykjavík suður fær Viðreisn 11,6% sem er athyglisvert í ljósi þess að fram að þessu hefur fylgi flokksins verið mjög svipað í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Framsókn virðist í sókn miðað við niðurstöðurnar og bætir sérstaklega við sig í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi en fylgið minnkar í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn bætir einnig við sig fylgi í Reykjavík.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi á milli kannana og mælist nú með 22,3% fylgi en mældist með 24,9% í síðustu viku.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist 15% á landsvísu en var 13,3% í síðustu viku.
Fylgi Miðflokksins mælist 6% en var 6,6% í síðustu viku.
Fylgi Viðreisnar mælist nú 12,2% en mældist 8,4% í síðustu viku.
Fylgi Flokks fólksins mælist nú 5% en mældist 4,5% í síðustu viku.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist 11,6% en mældist 12,1% í síðustu viku.
Fylgi Vinstri grænna mælist 10,5% en mældist 10,8% í síðustu viku.
Fylgi Pírata mælist nú 9,9% en mældist 9,8% í síðustu viku.
Fylgi Sósíalista mælist nú 6,7% en mældist 8,1% í síðustu viku.
951 svaraði könnuninni og af þeim tók 821 afstöðu.