„Á Bernhöftstorfunni standa enn fáein heldur lágreist hús. Ef ætti að brúka um þau lýsingarorð dytti manni helst í hug að kalla þau yfirlætislaus vinhlý og prúðmannleg, og mundu þær einkunnir ekki vera því fjarri að auðkenna þá menn ýmsa sem í þá daga settu bæarbraginn í Reykjavík eða jafnvel töluðu fyrir landið og þjóðina. Það væri ágætt að rífa ekki þessi lágu og fríðu hús sem tala við okkur kyrlátlega og kurteislega um þá tíð þegar Ísland var að vakna til kröfu um að íslenska væri töluð í Reykjavík; þá tíð sem var áður en hávaðinn kom og belgíngurinn.“
Þannig skrifaði Halldór Laxness í frægri grein sem nefndist „Brauð Reykjavíkur“ og birtist í Morgunblaðinu sumarið 1971 þegar til stóð að reisa „ríkisstjórnarhöll“ eins og hann kallaði það á Bernhöftstorfunni — milli Stjórnarráðsins og Menntaskólans. Brauðið var skírskotun í bakaríið sem þarna var starfrækt en gömlu húsin voru að mati Nóbelskáldsins tenging við horfinn tíma sem hollt væri að minnast. Í kjölfarið spratt upp hreyfing manna sem barðist fyrir verndun gömlu húsanna. Með tíð og tíma varð húsfriðunarfólki verulega ágengt og um leið breyttist verðmætamat þorra almennings: gömlu húsin yrðu að fá að standa því þar byggi sál bæjarins.
Maður rífur ekki borgir
Hilmar Þór Björnsson arkitekt var gestur í þætti mínum Sögu & samfélagi á Hringbraut á föstudagskvöldið var þar sem við ræddum um húsvernd. Hilmar Þór gat þess að alls staðar í löndunum í kringum okkur hefði náðst samstaða um verndun gömlu bæjanna og þess sem kallað er „staðaranda“. En hér væri annað uppi á teningnum og um þessar mundir ætti sér stað stórkostlegt niðurrif húsa — í mörgum tilfellum vandaðra, nýlegra bygginga. „Maður rífur ekki borgir, maður byggir við þær,“ sagði Hilmar Þór og benti á að flestum þeim húsum sem nú er verið að rífa víðs vegar um borgina mætti breyta svo þau hentuðu nýjum þörfum og við þau byggja sömuleiðis. Stefnan hvarvetna í löndunum í kringum okkur sé að rífa ekki hús. Reykjavík skeri sig úr.
Niðurrif borgarinnar samræmist heldur ekki nútímasjónarmiðum í umhverfisvernd. Framleiðsla steypu er mengangdi iðnaður og verðmætamat orðið verulega brenglað þegar góðum, vel byggðum, jafnvel nýlegum húsum er fórnað til þess eins að „auka byggingarmagn“. Umhverfisvernd snýst um svo miklu meira en það hvort burðarpokinn í matvöruversluninni sé úr plasti eða pappír — hún snýst um nýtni — að farið sé vel með eignir og þeim ekki sólundað. Og með því að rífa gróin kennileyti í borginni hverfur hluti „staðarandans“ — tenging við söguna og það sem fyrir var og borgin verður fátækari fyrir vikið.
Meðal þeirra húsa sem til stendur að rífa á næstu árum eru byggingar bifreiðaumboðsins Heklu og allar skemmur Rafmagnsveitunnar við Suðurlandsbraut og Ármúla. Kunningi minn sagði þetta „ljót hús“ sem rétt væri að hyrfu. Það sama var sagt um Bernhöftstorfuna sem nú þykir bæjarprýði.
Menningarsögulegt slys í uppsiglingu
En það er heldur ekki sama hvernig staðið er að viðbyggingum. Við höfum fyrir okkur nokkur ljót dæmi um það hvernig virðuleg gömul hús voru hreinlega eyðilögð með misheppnuðum viðbyggingum. Nefna má hæðirnar fjórar sem hlaðið var ofan á Útvegsbankann við Lækjartorg og bæjarbúar hafa aldrei tekið í sátt. Og handan torgsins stendur til að byggja við Stjórnarráðshúsið — skrifstofuhús sem minnir um margt á „ríkisstjórnarhöllina“ sem áður var ráðgerð á Bernhöftstorfunni.
Fyrirhuguð viðbygging við Stjórnarráðið verður alls um 1.200 fermetrar. Af öllum uppdráttum að dæma er menningarsögulegt slys í uppsiglingu og illskiljanlegt hvernig nokkrum dettur í hug að troða svo miklu byggingarmagni á jafnlitla lóð. Athugum að Stjórnarráðið er eitt af elstu steinhúsum landsins, reist á árunum 1765–1770 sem fangelsi. Hvers vegna fær þessi aldna bygging ekki að standa ein í friði fyrir útþennslu báknsins? Nóbelsskáldið sagði í greininni sem áður var nefnd að við Íslendingar hefðum einlægt virt „amk. í hófi“ þær ríkisstjórnir sem við hefðum kosið yfir okkur en hætt við að okkur leiddist
„þessi aðilji ef hann misskilur til hvers við kusum hann og ætlar oní okkur; eða vill til að mynda útrýma sérhverju grænu strái úr þessari allífisbrekku okkar Bakarabrekkunni þar sem brauðið á heima, og reisa þar í staðinn eitthvert skelfilegt kontóristabæli sem er að reyna að líkjast keisarahöll“
Leyfum grösunum að spretta áfram á hinum agnarsmáa túnfleti aftan við hið vinhlýja og prúðmannlega hús. „Ríkisstjórnarhöllin“ í bakgarðinum yrði ekkert annað en menningarsögulegt slys.