Fréttablaðið skýrir frá þessu. Hefja má atkvæðagreiðslu átta vikum fyrir kjördag en þar sem kjördagur hefur ekki verið auglýstur og þing ekki rofið er ekki hægt að hefja hana. Þing verður ekki rofið síðar en 12. ágúst ef kjósa á 25. september þar sem ekki mega líða meira en 45 dagar frá því að þing er rofið þar til kosið er.
Fréttablaðið hefur eftir Sigríði Kristinsdóttur, hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, að utankjörfundaratkvæðagreiðsla geti hafist daginn eftir að þing verður rofið. Ef það verður gert 12. ágúst og kosið 25. september verður aðeins hægt að greiða utankjörfundaratkvæði í sex vikur. Sigríður sagði að undirbúningur sé hafinn og að í næstu viku fundi sýslumenn og dómsmálaráðuneytið um málið.