Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að 2018 hafi 49 starfað í ráðuneytinu, 29 konur og 20 karlar, 2019 voru starfsmennirnir 47, 33 konur og 14 karlar og eins og fyrr segir voru starfsmennirnir 55 á síðasta ári.
Fréttablaðið segir að samkvæmt svari frá Sighvati Arnmundssyni, stjórnarráðsfulltrúa, sé samanburður á milli 2017 og 2020 nokkuð flókinn. Til dæmis séu ráðherra og aðstoðarmenn hans ekki inni í tölunum frá 2017 en séu það í tölunum frá 2020. „Í árslok 2020 voru auk ráðherra, fimm aðstoðarmenn starfandi í ráðuneytinu,“ er haft eftir honum. Á móti kemur að þeir sem starfa við öryggisgæslu teljist ekki lengur starfsmenn ráðuneytisins, þeir teljast nú starfsmenn ríkislögreglustjóra. Þeir voru þrír árið 2017.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi meðal annars fjölgun starfsfólks í þættinum Pólitík á Hringbraut í gærkvöldi. Þar sagði hún að stóri þátturinn í þessum tölum væri að málaflokkur jafnréttismála hafi verið færður frá félagsmálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið og hafi starfsfólk fylgt þessum flutningi. Hún sagði einnig að fjölgun starfsmanna væri eðlileg hliðarverkun af því stóra hlutverki sem forsætisráðuneytið hefur gegnt. Það eigi að vera leiðandi í stefnumótun og starfsmannafjöldinn eigi að vera tiltölulega sveigjanlegur út frá hvaða verkefni séu fyrirliggjandi.