Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. „Maður veit ekki hvernig stemningin verður með haustinu eða hver staðan á faraldrinum verður. Á þessari stundu er ekki mikil stemning, hvorki í samfélaginu né innan verkalýðshreyfingarinnar, fyrir átökum eða aðgerðum sem auka á óvissu í þjóðfélaginu samhliða fjölgun smita. Það er mitt mat, en þetta getur breyst hratt og það mun fara eftir stemningunni hjá okkar félagsmönnum og í samfélaginu hver afstaða okkar verður til þessarar endurskoðunar í haust,“ er haft eftir Ragnari um stöðuna hvað varðar endurskoðun lífskjarasamninganna.
Hann sagði að fulltrúar ASÍ og stóru verkalýðsfélaganna muni fara yfir stöðuna og meta hana út frá hversu mikil áhrif vanefndir ríkisstjórnarinnar munu hafa á kjarasamninga. Einnig verði hagræn áhrif faraldursins metin og hvort þau séu farin að ganga til baka en þar vísaði hann til áhrifa hans á verðbólgu.
Hann sagði að á næsta ári muni verða gerð krafa um launahækkanir sem jafna út verðbólguna. Vaxtalækkanir Seðlabankans höfðu að hans sögn jákvæð áhrif á kaupmátt félagsmanna VR en hann sagði einnig að stjórnvöld hafi sýnt af sér andvaraleysi því þau hafi ekki verið nægilega vel búin undir þá spennu sem myndaðist á fasteignamarkaði í kjölfar vaxtalækkana.