Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að fyrirtækið hafi verið rekið með 241 milljón króna tapi fyrir skatta á síðasta ári en 2019 var tapið 219 milljónir. „Árið 2020 var ár óvissunnar. Við urðum fyrir miklu höggi – sérstaklega í upphafi en svo náðum við að snúa vörn í sókn. Það fór að birta til í rekstrinum eftir maí,“ er haft eftir Helga Rúnari Óskarssyni, forstjóra fyrirtækisins.
Hann sagði að Íslendingar hafi farið að stunda útivist af kappi þegar þeir gátu ekki farið í líkamsræktarstöðvar og hafi fyrirtækið notið góðs af því. Einnig hafi komið sér vel að fyrirtækið fjárfesti í tæknilausnum til að efla vefsölu áður en heimsfaraldurinn brast á. Ný vefsíða fór í loftið í september og sagði Helgi að það hafi hjálpað mikið á síðari hluta ársins. Netsalan sé að aukast og fari að verða um 15% af veltu.
Fyrirtækið varð að loka tveimur verslunum í Kaupmannahöfn á síðasta ári vegna harðra sóttvarnaráðstafana í Danmörku sem gerðu að verkum að aðeins matvöruverslanir og lyfjaverslanir máttu hafa opið um hríð.
Önnur verslunin var opnuð á nýjan leik um áramótin og innan skamms verður verslunin á Strikinu opnuð á nýjan leik.