Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, spurði Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjórann á Höfuðborgarsvæðinu hvort ekki væri von á afsökunarbeiðni vegna dagbókarfærslu lögreglu sem send var fjölmiðlum á aðfangadag. Þetta kemur fram hjá RÚV.
Líkt og flestir muna vakti það athygli á aðfangadag þegar greind var frá því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefði verið viðstaddur sýningu í Ásmundarsal í Reykjavík á Þorláksmessu þar sem sóttvarnir voru ekki virtar.
Þessar upplýsingar fengu fjölmiðlar þar sem í dagbókarfærslu lögreglu þar sem kom fram að lögreglan hefði stöðvað gleðskap í Ásmundarsal, og að þar hefðu verið 40-50 manns, fáir með grímur og 2ja metra reglan virt að vettugi. Þá hefðu viðstaddir kvaðst með faðmlögum og kossum eftir að lögregla sleit partýinu og einn líkt lögreglu við nasista á útleið. Eins var tekið fram að hæstvirtur ráðherra hafi verið meðal gesta, þó ekki væri tilgreint hvaða ráðherra ætti þar í hlut en fjölmiðlar beittu útilokunaraðferðinni og fundu fljótt út að um Bjarna var að ræða.
Það vakti svo aftur athygli þegar í febrúar var greint frá því að Áslaug Arna hafi í tvígang rætt við Höllu lögreglustjóra á aðfangadag um tilkynninguna. Ekki hefur þó áður komið fram hvað um var rætt í téðum símtölum annað en að þau hafi snúið að upplýsingagjöf lögreglunnar og hvernig að henni var staðið umrætt sinn.
Um símtölin var rætt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í mars en trúnaður ríkir um það sem fram fer á þeim fundi. Því hefur ekki áður komið fram hvað Áslaug sagði á fundinum, þar til nú. En RÚV greinir frá því að Áslaug hafi spurt Höllu Bergþóru hvort lögreglan ætlaði að biðjast afsökunar á dagbókarfærslunni.
Áslaug hefur áður sagt að henni hafi þótt tilkynning lögreglu sérstök en tók fram að hún hafi ekki látið upp þá skoðun sína í símtölunum við Höllu. Hins vegar má telja að nokkur afstaða felist í þeirri spurningu að falast eftir afsökunarbeiðni.