Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Arngrími Guðmundssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, að allt hafi gengið mjög vel en biðtíminn hjá farþegum hafi lengst til að komast í gegnum vottorðaskoðun og sýnatöku. „Það má segja að þetta hafi verið annasamasta helgi frá því faraldurinn byrjaði,“ er haft eftir honum.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isvaia, sagði mjög ánægjulegt að sjá þessa fjölgun farþega. Hann sagði bjartari tíma fram undan á vellinum og að spár geri ráð fyrir að allt að tuttugu flugfélög verði þar með starfsemi í sumar.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði að sýnataka hafi gengið vel sem og skoðun á vottorðum. Búið sé að bæta við aðstöðuna á vellinum og verið sé að þjálfa nýtt starfsfólk. 17 afgreiðsluborð eru í komusalnum en þar eru vottorð lesin. Sýnataka fer fram í gámum úti á bílaplani og eru 24 básar fyrir sýnatöku þar.