Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sem lagði fram minnihlutaálit í allsherjar- og menntamálanefnd, hafi gagnrýnt ríkisstjórnina og sagt að um sýndarmennsku sé að ræða með því að taka málið inn í nefndina. Þar hafi málið ekki verið rætt í samhengi við frumvarp Brynjars Níelssonar og Óla Björns Kárasonar, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um að taka skuli Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það hafi heldur ekki verið rætt í samhengi við frumvarp Miðflokksins um að fólk geti ráðstafað hluta útvarpsgjaldsins til fjölmiðils að eigin vali. Sagði Þorsteinn að sú leið sem sé valin sé sú einfaldasta og um leið sú versta. Hún hafi í för með sér að frjálsir fjölmiðlar séu ekki líklegir til að gagnrýna stjórnvöld og að stóru fjölmiðlarnir hagnist meira en þeir minni.
Birgir Ármannsson var eini stjórnarþingmaðurinn sem tók þátt í umræðunni. Hann sagði ljóst að frumvarpið væri málamiðlun og ekki væri verið að reyna að fela það. Tveir kostir væru í boði, að gera eitthvað til að koma málinu í gegn eða slá ekkert af kröfum sínum og þar með komist það ekki í gegn. Hann sagði einnig að frumvarpið væri ekki í sjálfu sér upphaf eða endir á viðleitni stjórnvalda til að búa einkareknum fjölmiðlum starfsumhverfi.
Fréttablaðið segir að miðað við það sem þingmenn, sem blaðið ræddi við í gær, segi sé ekki ljóst hvort frumvarpið verði samþykkt á þriðjudaginn en þá er stefnt á að greiða atkvæði um það. Nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna eru sagðir andvígir frumvarpinu og ekki liggi fyrir hvort allir þingmenn stjórnarandstöðunnar styðji það.