Fréttablaðið skýrir frá þessu. Við sameiningu Húsavíkur, Öxafjarðarhrepps, Raufarhafnarhrepps og Kelduneshrepps 2006 var nafnið Norðurþingið tekið upp sem nafn sameinaðs sveitarfélags eftir kosningu. Áður hafði sameiningarnefnd lagt til 14 nöfn og sent til Örnefnanefndar sem sendi aðeins 3 nöfn til baka og um þau var kosið. Þetta voru Norðurþing, Norðausturbyggð og Gljúfrabyggð.
„Fólk fékk aðeins þrjá vonda kosti til að velja úr og nafnið Norðurþing hefur verið umdeilt allar götur síðan,“ ef haft eftir Ágústi sem benti á að við aðrar sameiningar sveitarfélaga hafi allur gangur verið á hvaða nöfn voru tekin upp. Í Árborg og Múlaþingi hafi ný nöfn verið tekin upp en Ísafjarðarbær og Akureyrarbær hafi haldið nöfnum sínum.
Hann sagði að bæði útlendingum og Íslendingum finnist nafnið Norðurþing óþjált og það sé lítið notað í daglegu tali og að nafninu sé oft ruglað við Norður-Þingeyjarsýslu en aðeins hluti sveitarfélagsins er innan sýslunnar.
Hann sagði að nafnabreyting þurfi ekki endilega að koma illa við íbúa á Raufarhöfn, Kópaskeri og í dreifbýlinu. Málið snúist um heildarhagsmuni svæðisins og benti á þá miklu kynningu sem sveitarfélagið hefur fengið vegna Eurovisionkvikmyndarinnar og þess að lagið Husavik er tilnefnt til Óskarsverðlauna.