Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að þetta komi fram í skriflegu svari Þjóðkirkjunnar við fyrirspurn blaðsins. Í svarinu segir að viðamikil endurskipulagning á rekstri kirkjunnar sé ein helsta ástæða niðurstöðu ársreikningsins en ársreikningurinn var samþykktur af Kirkjuráði 12. mars síðastliðinn. Fram kemur að sala á eignum, sem voru of hátt bókfærðar, hafi myndað sölutap sem sé einnig meginástæða stöðunnar.
Hrein eign Þjóðkirkjunnar var um 4,2 milljarðar í árslok 2020. Hallareksturinn á síðasta ári mun ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem kirkjan veitir en ljóst er að draga verður úr rekstrarkostnaði. Áætlað er að jafnvægi náist 2023.
Á síðasta ári hækkuðu laun presta og annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar um 6,5% og telur kirkjan að hana vanti á annað hundrað milljónir frá ríkinu vegna þessara hækkana og að líklega vanti einnig fjármagn vegna hækkana á þessu ári.