fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Að banna óhugnanlegar skoðanir

Eyjan
Sunnudaginn 7. febrúar 2021 19:00

Lögregla hafði afskipti af mótmælum Norðurvígis á Lækjartorgi í september 2019. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram er komið frumvarp á Alþingi þess efnis að gert verði refsivert að afneita helförinni. Bann af þessu tagi kann að hafa þveröfug áhrif. Vekur upp grundvallarspurningar um tjáningarfrelsið.

Á mínu fyrsta misseri í Háskóla Íslands sat ég áhugaverðan málfund. Tilefni fundarins var að nokkrir ungir menn höfðu stofnað Félag íslenskra þjóðernissinna og verið talsvert áberandi í þjóðfélagsumræðunni þar sem þeir viðruðu skoðanir sínar sem byggðu á kynþáttahyggju. Svo fór raunar að varaformaður félagsins var ákærður og dæmdur fyrir niðrandi ummæli um blökkumenn í viðtali við helgarblað DV eins og frægt varð.

Óbeisluð skoðanaskipti

En hverfum aftur í fundarsalinn í Odda, hús félagsvísindadeildar Háskólans. Forystumenn stúdentafylkinganna, Vöku og Röskvu, buðu til fundarins fulltrúum Félags íslenskra þjóðernissinna. Og þrátt fyrir að hafa ítrekað viðhaft ógeðfelldan málflutning var gestunum sýnd full kurteisi af hálfu fundarboðenda. Skemmst er frá því að segja að gestirnir voru kaffærðir með rökum enda opinberuðu þeir vanþekkingu sína með eftirminnilegum hætti. Þessi fundur hefur æ síðan verið mér hugstæður. Hann sýndi fram á mikilvægi óbeislaðra skoðanaskipta og í kjölfarið spurðist ekkert til þeirra ungu manna sem höfðu áður farið mikinn í kynþáttahatri í fjölmiðlum.

Að afneita helförinni

Mér varð hugsað til málfundarins fyrir tveimur áratugum þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir, nýr þingmaður Samfylkingarinnar, lagði á dögunum fram frumvarp ásamt hópi þingmanna sem felur það í sér að gert verði refsivert að afneita helförinni – útrýmingu þýskra nasista á sex milljónum gyðinga og öðrum hópum, svo sem stríðsföngum, fötluðum, Rómafólki, samkynhneigðum, pólitískum föngum og vottum Jehóva.

Í viðtali í Ríkisútvarpinu 22. janúar síðastliðinn kvaðst Rósa Björk hafa lagt frumvarpið fram sem „viðbrögð við þeirri ægilegu þróun sem hefur verið að eiga sér stað síðustu tvö árin í Evrópu þar sem gríðarleg fjölgun hefur orðið á glæpum, hatursglæpum, byggðum á gyðingahatri og fordómum í garð annarra trúarhópa líka og svo ekki síst líka sem viðbrögð við þeim ægilegu atburðum sem áttu sér stað núna fyrir skemmstu þegar nýnasistar og hægriöfgamenn réðust inn í þinghúsið bandaríska.“

Það er rétt að gyðingahatur fer vaxandi víðs vegar. Það þekki ég sjálfur af frásögnum vina minna gyðinga á megin landi Evrópu en í mörgum löndum meginlandsins hafa verið leidd í lög refsiákvæði við að afneita útrýmingarherferð þýskra nasista á gyðingum.

Til varnar fyrir málfrelsi

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, nefndi í samtali við Ríkisútvarpið að hann teldi vegið að tjáningarfrelsinu með frumvarpinu og bætti við: „Það er ótrúleg kaldhæðni að færa nýfasistum það vopn í hendur að leið frjálslynds lýðræðis sé að takmarka tjáningarfrelsi – heldur á þvert á móti að nýta það til að ljósið sigri myrkrið frekar heldur en myrkrið sé einfaldlega bannað,“ sagði Helgi Hrafn.

Hann kveðst óttast að lög af þessu tagi styrki beinlínis öfgafólk í „trúnni sem er svagt fyrir þeirri fáránlegu og ógeðfelldu hugmynd að helförin hafi ekki átt sér stað“. Þeir sem aðhyllist hugmyndir um að þjóðarmorðið á gyðingum sé uppspuni telji jafnvel að löggjöf af þessu tagi styrki málstað þeirra: Hvers vegna sé það svar hins opna lýðræðislega þjóðfélags að banna skoðanir? Öfgamennirnir álíti þá að þeir hljóti að hafa eitthvað til síns máls þar sem þeir hafi komið auga á veilur í lýðræðisfyrirkomulaginu – en hinir öfgafyllstu í þessum hópum aðhyllast beinlínis alræðishugmyndir og hafna þar með vestrænu lýðræði.

Öfgamenn víða

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af uppgangi öfgahópa, hvort sem um er að ræða nýmarxista, nýnasista eða hvaða nöfnum þeir kunna að nefnast. Í DV var ekki fyrir svo löngu fjallað um íslensk nýnasistasamtök sem nefna sig Norðurvígi og hafa tengsl við sambærileg samtök á hinum Norðurlöndunum. Þau samtök auglýstu um skeið talsvert á fésbókinni en þær auglýsingar voru fjarlægðar eftir fjölda kvartana. Þetta virtist vera vatn á myllu talsmanna samtakanna sem stilltu sér upp sem píslarvottum.

Gildi opinna skoðanaskipta

Fyrir skemmstu velti ég því upp hér í pistli að í reynd væru íslenskir stjórnmálamenn fremur stjórnlyndir en frjálslyndir þrátt fyrir að þeir skilgreindu sig flestir frjálslynda. Frumvarp Rósu Bjarkar er enn einn vitnisburðurinn um að stjórnlynd viðhorf megi sín meira en frjálslynd. Ásetningurinn með frumvarpinu er göfugur en eðlilega þarf að gæta hófs í takmörkunum á tjáningarfrelsi (sem nú þegar eru miklar) – og þá kann að vera að bann af þessu tagi hafi beinlínis þveröfug áhrif.

Frá frjálslyndum sjónarhóli má færa fyrir því gild rök að skoðanir sem meirihluta landsmanna þykja fráleitar og séu beinlínis ógeðfelldar eigi líka rétt á sér – jafnvel þó svo að þær feli í sér rangar fullyrðingar – því þegar sönnu og ósönnu lýstur saman verður skynjunin skýrari og við blasir fjörmeiri mynd af sannleikanum. Óhugnanlegar hugmyndir verða þá bara kaffærðar í fundarsölum líkt og ég varð vitni að í sal 101 í Odda fyrir tveimur áratugum. Í opnu lýðræðislegu þjóðfélagi á ljósið að geta sigrað myrkrið, líkt og Helgi Hrafn orðaði það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur