Fréttablaðið skýrir frá þessu. Segir blaðið að þau boð hafi borist til uppstillingarnefndar í Reykjavík að Heiða bjóði nú fram krafta sína. „Ég hef fengið mikið af áskorunum um að bjóða mig fram. Ég útiloka ekki neitt,“ er haft eftir Heiðu. Eiginmaður hennar, Hrannar B. Arnarson, vék úr uppstillingarnefnd fljótlega eftir að hún tók til starfa.
Nú blasir sá vandi við nefndinni að sjö af tíu vinsælustu frambjóðendunum, úr skoðanakönnuninni um frambjóðendur, eru konur. Það er því skortur á karlmönnum. Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður, var eini karlinn meðal fimm efstu í könnuninni. Þeir Ágúst Ólafur Ágústsson og Guðmundur Ingi Þóroddsson komust einnig inn á topp tíu í könnuninni. Ágúst hefur hafnað boði um að vera í þriðja sæti listans. Líklegast þykir að Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir muni leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmunum.